Vaknaði úr dái á síðustu stundu

Trenton McKinley höfuðkúpubrotnaði og hlaut alvarlegan heilaskaða þegar hann féll …
Trenton McKinley höfuðkúpubrotnaði og hlaut alvarlegan heilaskaða þegar hann féll af kerru sem var tengd aftan við bíl. Öllum að óvörum vaknaði hann úr dáinu þegar slökkva átti á öndunarvélinni. Ljósmynd/Facebook

Foreldrar 13 ára drengs sem hlaut alvarlegan heilaskaða eftir slys voru búnir að skrifa undir pappíra þess efnis að slökkt yrði á öndunarvél sonarins og líffæri hans gefin til þeirra sem á þeim þyrftu að halda þegar hið ótrúlega gerðist: Sonurinn komst aftur til meðvitundar.

Trenton McKinley höfuðkúpubrotnaði og hlaut alvarlegan heilaskaða þegar hann féll af kerru sem var tengd aftan við bíl. Slysið átti sér stað í mars.

Læknar höfðu tjáð foreldrum Trenton að honum væri ekki hugað líf en líffæri hans gætu bjargað lífi fimm barna. „Við sögðum já, það þýddi einnig að honum yrði haldið á lífi aðeins lengur til að undirbúa hann fyrir líffæragjöfina,“ segir Jennifer Reindl, móðir Trenton.

Degi áður en slökkva átti á öndunarvélinni sýndi Trenton hins vegar merki um heilastarfsemi og stuttu seinna vaknaði hann. Nú, um mánuði síðar, sýnir hann merki um bata. „Frá engri heilastarfsemi yfir í að tala, ganga, lesa og reikna. Þetta er kraftaverk,“ segir móðir Trentons.

„Ég skall í steypuna og kerran lenti ofan á höfðinu á mér,“ segir Trenton í samtali við Fox-sjónvarpsstöðina. Að öðru leyti man hann ekkert eftir slysinu.

Trenton glímir við mikla taugaverki og fær flogaköst. Hann hefur þegar gengist undir nokkrar aðgerðir og þarf einnig að fara í aðgerð þar sem höfuðkúpa hans verður sett saman á ný. Móðir hans segir hann verða sterkari með hverjum deginum en ljóst er að bataferlið verður langt og strangt. 

„Það er engin önnur útskýring en Guð. Það er engin önnur leið. Jafnvel læknarnir segja það,“ segir Trenton.

Frétt BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka