Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti fyrir stundu að hann ætli að draga Bandaríkin úr kjarnorkusamningum við Írana. Trump ræddi málið á blaðamannafundi sem hófst klukkan 18 að íslenskum tíma.
Samkomulagið er frá árinu 2015 en með því að segja sig frá því munu þvingunaraðgerðir Bandaríkjanna gegn Íran verða settar fram að nýju. Jafnframt hyggjast stjórnvöld í Bandaríkjunum beita nýjum efnahagslegum þvingunum.
Bandaríkin, Frakkland, Bretland, Rússland, Kína, Þýskaland og Evrópusambandið gerðu samkomulagið við Írana árið 2015 en í því fólst að Íranar takmörkuðu kjarnorkuframleiðslu sína gegn því að stórveldin felldu niður refsiaðgerðir gegn Íran.