Ali Khamenei, erkiklerkur og æðsti ráðamaður Írans, segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi gert mistök með að draga Bandaríkin út úr kjarnorkusamkomulagi sexveldanna svonefndu.
„Ég hef sagt frá upphafi: Ekki treysta Bandaríkjunum,“ sagði Khamenei í ávarpi sem hann beindi beint að Trump. BBC greinir frá.
Kjarnorkusamkomulagið við Íran var undirritað árið 2015 af ríkjunum fimm sem hafa neitunarvald í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna (Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland), auk Þýskalands og felur í sér að dregið er úr refsiaðgerðum gegn Íran gegn því að þarlend stjórnvöld hætti tilraunum til þess að koma sér upp kjarnavopnum tímabundið.
Óvissa ríkir um framtíð samkomulagsins. Khameini hefur hvatt írönsku ríkisstjórnina til að ræða ítarlega við Evrópuríkin sem eiga aðild að samkomulaginu áður en því verður fram haldið.
Trump hefur ítrekað gagnrýnt kjarnorkusamkomulagið sem undirritað var af forvera hans í embætti, Barack Obama, og lýst yfir vilja sínum til þess að rifta því. Leiðtogar Evrópuríkja hafa hins vegar lagt áherslu á mikilvægi þess að viðhalda samkomulaginu.
Utanríkisráðherra Frakklands, Jean-Yves Le Drian, segir samkomulagið ekki dautt og utanríkisráðherra Bretlands, Boris Johnson, segir að Bretland hafi ekki í hyggju að segja skilið við samkomulagið. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að hún muni gera allt sem í hennar valdi stendur til að fá Íran til að standa við skuldbindingar sínar í framtíðinni.
Hassan Rouhani, forseti Írans, hefur gefið í skyn að hann muni beita sér fyrir því að bjarga samkomulaginu. Rouhani var við völd þegar samkomulagið var undirritað fyrir þremur árum og þykir hann vera hófsamur umbótasinni. Rouhani segir hins vegar að tíminn sé naumur og Íranar kynnu að hefja kjarnorkuáætlun sína að nýju með því að „auðga meira úran en áður“.