Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, segir að Íranir hafi farið yfir strikið með því að skjóta flugskeytum að ísraelskum hersveitum frá Sýrlandi í gær.
Eins og greint var frá í morgun gerðu íranskar hersveitir árás í nótt á bækistöðvar Ísraelshers í Gólanhæðum í Sýrlandi en alls var um 20 flugskeytum skotið.
Árásunum var svarað og segir Avigdor Liberman, varnarmálaráðherra Ísraels, að ísraelska hernum hafi tekist að skemma nær allar herstöðvar Írans í Sýrlandi.
„Íranir fóru yfir strikið og viðbrögðin okkar voru afleiðing þeirra gjörða,“ sagði Netanyahu í myndskeiði í dag.
„Árás ísraelska hersins á írönsk skotmörk í Sýrlandi var víðtæk,“ bætti Netanyahu við. „Við munum ekki leyfa Írönum að koma sér fyrir hernaðarlega í Sýrlandi.“