Kaffihúsarisinn Starbucks ætlar að taka upp nýja stefnu þar sem fólk þarf ekki að kaupa eitthvað inni á stöðunum áður en það notar salerni. Ákvörðun Starbucks kemur í kjölfar þess að tveir svartir menn voru handteknir í síðasta mánuði á meðan þeir biðu eftir vini sínum á einu kaffihúsa keðjunnar í Fíladelfíu.
Rekstrarstjóri kaffihússins kom til mannanna og bað þá um að fara eftir að þeir höfðu beðið um að fá að nota snyrtingu staðarins. Mennirnir sögðu þá starfsfólkinu að þeir væru að bíða eftir vini sínum og neituðu að yfirgefa staðinn.
Lögreglustjórinn í Fíladelfíu segir lögreglumennina hafa verið í rétti til að handtaka mennina þar sem starfsfólk staðarins hafi sagt þeim að mennirnir væru þar í óleyfi. Forstjóri Starbucks segir að ekki hafi átt að kalla til lögreglu vegna þessa máls.
„Við viljum ekki verða almenningssalerni. Við ætlum hins vegar alltaf að taka rétta ákvörðun og afhenda fólki lykilinn,“ sagði Howard Schultz, framkvæmdastjóri Starbucks.
„Allir eru velkomnir á Starbucks,“ bætti hann við.