Telja líkur á sprengigosi

Vísindamenn telja að möguleiki sé á meiri háttar eldgosi úr Kilauea-eldfjallinu á Hawaii. Fjallið hóf að gjósa fyrir um viku og hefur hraun runnið í stríðum straumum frá því síðan. Hafa vísindamenn hvatt til að Eldfjallaþjóðgarðinum á eyjunni verði lokað í varúðarskyni.

Vísindamennirnir segja að nú sé yfirborð hraunsins í gíg eldfjallsins að lækka sem gæti þýtt að sprenging innan hans sé í uppsiglingu. Fari yfirborð hraunsins undir grunnvatnsborðið geti kvikan komist að vatni og hitað það og mikil gufa myndast, að sögn Ingrid Johanson, eldfjallafræðings. Og ef hraunmolar falla úr veggjum gígsins geti myndast stífla. Þá myndast mikill þrýstingur undir sem „getur að lokum valdið mikilli sprengingu“, að sögn Johanson.

Þessi atburðarás gæti hafist um miðjan mánuðinn að mati vísindamanna. 

Kilauea er eitt virkasta eldfjall heims og er eitt af fimm eldfjöllum á Stórueyju á Hawaii. 

Í aðdraganda gossins var 5 stiga jarðskjálfti. Eftir að gosið hófst á fimmtudag í síðustu viku varð svo 6,9 stiga skjálfti sem er sá stærsti sem mælst hefur á Hawaii frá árinu 1975.

Eldgosið hefur valdið mikilli eyðileggingu í íbúabyggð í grennd fjallsins en engan hefur sakað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert