18 látnir úr ebólu

Yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, er kominn til Austur-Kongó til þess að kanna aðstæður vegna fregna um að ebóla hafi blossað upp í landinu að nýju.

Tedros Adhanom Ghebreyesus kom til Austur-Kongó í gær en faraldurinn er í héraði norðaustur af Kinshasa, skammt frá landamærum Kongó 18 í bænum Bikoro og nágrenni eru látnir.

Ebólusjúkdómur hefur verið staðfestur í Equatur-héraði í norðvestur hluta Austur-Kongó (áður Saír), nærri landamærum við Kongó. 

Á vef embættis landlæknis segir að ebóla komi nokkuð reglulega upp í Austur-Kongó og dregur veiran nafn sitt af ánni Ebola í norðurhluta landsins.

„Ólíkt stóra ebólufaraldrinum á þéttbýlum svæðum í Vestur-Afríku 2014–2015 er hæpið að ferðamönnum stafi veruleg hætta af þessum faraldri en brýnt er að ferðalangar í Afríku og öðrum hitabeltissvæðum geri ráðstafanir til að forðast algenga og oft hættulega hitabeltissjúkdóma s.s. malaríu, beinbrunasótt og taugaveiki. Einnig er rétt að hafa í huga að hundaæði og fleiri lífshættulegir sjúkdómar, þ. á m. hugsanlega ebóla, geta borist frá leðurblökum og öðrum dýrum eða í sumum tilvikum dýraúrgangi og er rétt að forðast snertingu við ókunnug dýr eða dýraúrgang á ferðalögum.

Rétt er að ræða við lækni ef fram koma veikindi með hita innan mánaðar eftir ferðalag á framandi slóðir og taka fram hvar var ferðast og við hvaða aðstæður,“ segir á vef landlæknis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka