Foreldrar árásarmannsins í haldi

AFP

Árásarmaðurinn, sem drap einn og særði fjóra til viðbótar í París í gærkvöldi, er ættaður frá Tsjetsjeníu. Foreldrar hans eru í haldi lögreglu, samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar. Maðurinn er fæddur árið 1997 og er því tvítugur að aldri, fæddur í Tsjetsjeníu en búsettur í Frakklandi og með ríkisborgararétt þar. 

Maðurinn drap 29 ára gamlan mann í Óperu-hverfinu í París og særði fjóra vegfarendur áður en lögregla skaut hann til bana. Hann kallaði Allahu Akbar (Guð er mikill) þegar hann réðst á fólkið að sögn vitna. 

AFP

Vígasamtökin Ríki íslams hafa lýst ábyrgð á árásinni og segja að árásarmaðurinn hafi verið einn af „hermönnum“ samtakanna en þetta hefur ekki fengist staðfest. 

Í frönskum fjölmiðlum segir að foreldrar hans hafi verið handteknir en það hefur ekki fengist staðfest af innanríkisráðherra Frakklands, Gérard Collomb. 

Árásarmaðurinn er ekki á sakaskrá og er fátt vitað hvað honum gekk til. Heimildir AFP fréttastofunnar herma að hann hafi verið á skrá hjá hryðjuverkadeild lögreglunnar sem mögulegur öfgasinni. Um er að ræða svokallan S-lista en þar eru nöfn fólks sem er grunað um öfgaful viðhorf og gæti ógnað öryggi annarra.

Árásin er rannsökuð sem hryðjuverk vegna þess að hann ákallaði guð þegar hann réðst á fólkið. Að sögn vitna virtist hann vera sturlaður og hljóp stefnulaust um götur hverfisins. Hann var ekki með skilríki á sér. 

Collomb hélt blaðamannafund í nótt þar sem fram kom að 34 ára gamall maður sé mjög alvarlega særður á gjörgæsludeild Georges-Pompidou spítalans og að 54 ára gömul kona sé einnig alvarlega særð eftir árásina. 26 ára gömul kona og 31 árs gamall maður eru einnig særð en hvorugt alvarlega. Talið er að ekkert þeirra sé í lífshættu.

Að sögn vitna er árásarmaðurinn ungur dökkhærður maður með skegg, klæddur í svartan klæðnað. Hann tók skyndilega upp hníf og réðst á fólk sem hann mætti. Hann reyndi að komast inn á nokkra bari og veitingahús en tókst það ekki þar sem gestir komu í veg fyrir það. Aðeins nokkrum mínútum eftir að árásin hófst um klukkan 21 að staðartíma var lögregla komin á veggvang. Hún reyndi fyrst að stöðva hann með rafbyssu án árangurs og skaut hann síðan til bana.

Saksóknarinn í París, Franço­is Mol­ins.
Saksóknarinn í París, Franço­is Mol­ins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert