Átta börn undir sextán ára aldri eru á meðal þeirra sem hafa látist í átökum á Gaza í dag. Þetta segir sendiherra Palestínumanna hjá Sameinuðu þjóðunum.
Palestínumenn hafa mótmælt harðlega opnun bandaríska sendiráðsins í Jerúsalem og skutu ísraelskar leyniskyttur í morgun á mótmælendur.
„Við fordæmum af öllu afli þessum grimmdarverkum ísraelskra hermanna sem hafa beitt skotvopnum gegn almennum borgurum sem hafa fullan rétt til friðsamlegra mótmæla – og þeir hafa verið að mótmæla á friðsamlegan hátt,“ sagði sendiherrann Riyad Mansour.
Hann sagði að 45 Palestínumenn væru látnir og að yfir 2.000 manns hefðu særst.
Heilbrigðisráðuneytið á Gaza greindi skömmu síðar frá því að látnir væru nú komnir upp í 52.