Brú á milli Rússlands og Krímskaga opnuð

Pútín heldur ræðu við opnunarathöfnina.
Pútín heldur ræðu við opnunarathöfnina. AFP

Valdimir Pútín, forseti Rússlands, var gagnrýndur af Bandaríkjunum, Evrópusambandinu og Úkraínu í dag eftir að hann opnaði nýja brú sem tengir Rússland við Krímskaga, með því að aka vörubíl yfir hana.

Rússneska ríkissjónvarpið sýndi þegar Pútín ók vörubílnum 19 kílómetra yfir brúna sem tengir Taman-skagann í suðurhluta Rússlands við Krímskaga í Úkraínu, sem var innlimaður af stjórnvöldum í Moskvu árið 2014.

„Ég vil óska ykkur til hamingju með þennan merkilega, hátíðlega og í fullum skilningi orðsins, sögulega dag,“ sagði Pútín við verkamenn áður en hann lagði af stað.

Hann bætti við að fólk hefði lengi dreymt um að byggja brú sem þessa.

Brúin tekur þar með við af Vasco da Gama-brúnni í Lissabon sem lengsta brú Evrópu.

Kostnaður hennar nam 3,7 milljörðum dollara.

Úkraína, ásamt meirihluta alþjóðasamfélagsins, viðurkennir ekki innlimun Rússa á Krímskaga. Stjórnvöld í landinu fordæmdu smíði brúarinnar. „Stjórnvöld í Rússlandi, sem hafa tímabundið innlimað Krímskaga, halda áfram að starfa utan alþjóðlegra laga,“ sagði Volodymyr Groysman, forsætisráðherra Rússlands.

Bandaríkin sögðu að opnun brúarinnar væri tilraun til að festa í sessi „ólögmætt eignarnám“ úkraínsks landsvæðis.

Evrópusambandið sagði smíði brúarinnar brjóta gegn fullveldi Úkraínu og utanríkisráðherra Breta, Alan Duncan, sagði að brúin væri enn eitt dæmið um ófyrirleitna hegðun Rússa.

Pútín við stýrið á vörubílnum.
Pútín við stýrið á vörubílnum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert