Táragasið drap ungbarn

Átta mánaða gamalt barn lést úr gaseitrun austur af Gaza-borg í mótmælunum í gær. Alls létust 59 Palestínumenn, flestir voru þeir drepnir af leyniskyttum Ísraelshers.

Ekki kemur fram í tilkynningu heilbrigðisráðuneytis Palestínu hversu skammt frá landamærunum Leila al-Ghandour, 8 mánaða, og fjölskylda hennar voru þegar hún varð fyrir táragasinu. 

Að minnsta kosti fimm staðir hafa verið skipulagðir frá því mótmælin við landamærin hófust 30. mars og er þeim flestum skipt upp, fyrir þá sem eru í framvarðarsveitinni og síðan fjölskyldur aftar. 

AFP

Mótmælt var opnun sendiráðs Bandaríkjanna í Jerúsalem en 70 ár eru liðin frá sjálfstæði Ísraels. Tugir þúsunda Palestínumanna tóku þátt í mótmælum við landamærin en lítill hluti þeirra tók þátt í að reyna að fara yfir landamærin. Ísraelskir hermenn beittu táragasi og eins skutu leyniskyttur á þá sem tóku þátt í mótmælunum.

Í dag minnast Palestínumenn þess að í dag eru 70 ár liðin frá deginum sem þeir nefna Nakba, hörmungarnar, en sem Ísraelar fagna sem upphafi sjálfstæðs ríkis gyðinga. Við stofnun Ísraelsríkis urðu um 750.000 arabar landflótta þegar þeir voru hraktir úr landi sínu sem breytt hafði verið í Ísraelsríki.

Bandaríkin komu í veg fyrir samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að fram fari sjálfstæð rannsókn á ofbeldinu á landamærum Ísraels og Gaza. Í yfirlýsingunni, sem Bandaríkin komu í veg fyrir að yrði samþykkt, sagði að öryggisráðið lýsi reiði og sorg yfir drápinu á palestínskum borgurum sem nýttu sér rétt sinn til friðsamlegra mótmæla. 

Ekki hafa jafn margir látist í átökum Ísraela og Palestínumanna á einum degi og í gær frá árinu 2014. Yfir 2.400 eru særðir. Meðal þeirra látnu eru átta börn yngri en 16 ára. 

AFP

Mörg ríki, þar á meðal Bretland, Frakkland og Rússland, hafa gagnrýnt ákvörðun Bandaríkjanna harðlega fyrir flutning á sendiráðinu frá Tel Aviv til Jerúsalem. Alls hafa 128 ríki tekið undir samþykkt Sameinuðu þjóðanna um að fordæma ákvörðun Bandaríkjanna um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. 

Bandaríks yfirvöld sýndu bandamönnum sínum í Ísrael stuðning í gær með því að saka Hamas um að bera ábyrgð á ofbeldinu.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert