Trump líkti farandfólki við dýr

Donald Trump á fundinum í Hvíta húsinu.
Donald Trump á fundinum í Hvíta húsinu. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti líkti farandfólki við dýr á fundi í Hvíta húsinu þar sem umræður fór fram um landamæramúr sem hann hefur heitið því að reisa við Mexíkó og löggæslu.

„Það er fólk að koma til landsins eða reynir að komast hingað,“ sagði Trump á fundinum sem repúblikanar frá Kaliforníu sóttu. „Við erum að flytja fólk út úr landinu.“

Forsetinn bætti við: „Þið trúið ekki hversu slæmt fólk þetta er. Þetta er ekki fólk, þetta eru dýr og við erum að flytja þau úr landi.“

Þetta sagði forsetinn eftir umræðu um svokallaðar „verndarborgir“ sem eru umdæmi þar sem samstarf við ríkisvaldið við að framfylgja innflytjendalögum er takmarkað, og umræðu um glæpagengið MS-13 sem forsetinn hefur lýst sem morðingjum.

Oft á tíðum hefur Trump nefnt MS-13 og innflytjendur í sömu andrá.

Demókratar hafa fordæmt ummæli Trumps.

„Innflytjendur eru manneskjur. Þeir eru ekki dýr, ekki glæpamenn, ekki eiturlyfjasalar, ekki nauðgarar. Þeir eru manneskjur,“ sagði Jared Polis, þingmaður Colorado.

Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, sagði: „Trump er að ljúga um innflytjendamál, ljúga um glæpi og ljúga um lög Kaliforníu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert