Gina Haspel nýr yfirmaður CIA

Gina Haspel er fyrsta konan sem gegnir starfi yfirmanns bandarísku …
Gina Haspel er fyrsta konan sem gegnir starfi yfirmanns bandarísku leyniþjónustunnar, CIA. AFP

Öldungadeild Bandaríkjaþing samþykkti í dag tilnefningu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á Ginu Haspel sem næsta yfirmann bandarísku leyniþjónustunnar, CIA. Haspel verður fyrsta konan til að gegna starfi yfirmanns leyniþjónustunnar.  

Tilnefningin var samþykkt þrátt fyrir tengsl hennar við leyni­legt fang­elsi CIA á Taílandi árið 2002 þar sem liðsmenn hryðju­verka­sam­tak­anna Al-Kaída voru beitt­ir vatns­pynding­um. Tengslin hafa verið harðlega gagnrýnd, sérstaklega af þingmönnum demókrata. 

Haspel kom fyrir nefnd  banda­rísku öld­unga­deild­ar­inn­ar í síðustu viku þar sem hún fullyrti að stofn­un­in muni ekki beita pynd­ing­um und­ir henn­ar stjórn.

Alls greiddu 54 þingmenn atkvæði með tilnefningunni en 45 á móti. Einn sat hjá. Sex þingmenn Demókrataflokksins fóru á svig við vilja flokksins og greiddu atkvæði með tilnefningunni. Tveir þingmenn Repúblikanaflokksins greiddu atkvæði gegn Haspel.

Trump óskaði Haspel formlega til hamingju á Twitter, eins og honum einum er lagið. Forsetinn hefur ítrekað sagt að hún sé fádæma hæf í starf yfirmanns leyniþjónustunnar.

Haspel, sem er 61 árs, tekur við af Mike Pompeo, sem Trump útnefndi sem utanríkisráðherra fyrir skömmu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka