Öldungadeild Bandaríkjaþing samþykkti í dag tilnefningu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á Ginu Haspel sem næsta yfirmann bandarísku leyniþjónustunnar, CIA. Haspel verður fyrsta konan til að gegna starfi yfirmanns leyniþjónustunnar.
Tilnefningin var samþykkt þrátt fyrir tengsl hennar við leynilegt fangelsi CIA á Taílandi árið 2002 þar sem liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Al-Kaída voru beittir vatnspyndingum. Tengslin hafa verið harðlega gagnrýnd, sérstaklega af þingmönnum demókrata.
Haspel kom fyrir nefnd bandarísku öldungadeildarinnar í síðustu viku þar sem hún fullyrti að stofnunin muni ekki beita pyndingum undir hennar stjórn.
Alls greiddu 54 þingmenn atkvæði með tilnefningunni en 45 á móti. Einn sat hjá. Sex þingmenn Demókrataflokksins fóru á svig við vilja flokksins og greiddu atkvæði með tilnefningunni. Tveir þingmenn Repúblikanaflokksins greiddu atkvæði gegn Haspel.
Trump óskaði Haspel formlega til hamingju á Twitter, eins og honum einum er lagið. Forsetinn hefur ítrekað sagt að hún sé fádæma hæf í starf yfirmanns leyniþjónustunnar.
Congratulations to our new CIA Director, Gina Haspel! pic.twitter.com/n1xj9LSV9D
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) May 17, 2018
Haspel, sem er 61 árs, tekur við af Mike Pompeo, sem Trump útnefndi sem utanríkisráðherra fyrir skömmu.