Háttsettur meðlimur í forystu Hamas-samtakanna, Salah al-Bardaweel, segir að flestir þeirra 62 sem létust í mótmælum við landamæri Ísraels og Gaza-strandarinnar á mánudaginn hafi verið liðsmenn samtakanna eða 50. Aðrir hafi verið almennir borgarar.
Þetta er haft eftir al-Bardaweel á fréttavef bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN. „Í síðustu lotu [mómæla] voru 62 fórnarlömb; 50 þeirra voru frá Hamas og 12 frá almenningi,“ sagði hann aðspurður hvort Hamas væri að senda fólk út í opinn dauðann í mótmælunum. Sagði al-Bardaweel að um opinberar tölur væri að ræða.
Stjórnvöld í Ísrael hafa sagt ummælin styðja fullyrðingar þeirra um að mótmælunum væri stýrt af Hama-samtökunum, en samtökin eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök meðal annars af Ísrael, Bandaríkjunum oh Evrópusambandinu. Ljóst væri að mótmælin væru alls ekki friðsöm.
Talsmaður Hamas, Abdel Latif Quanau, gat hvorki staðfesta né hafna ummælum al-Bardaweel í samtali við fréttamann CNN. Sagðist hann ekki hafa nákvæmar tölur í þeim efnum en Hamas, hernaðarlegur vængur samtakanna, Islamic Jihad og önnur samtök sem eru með starfsemi á Gaza hefðu tekið þátt í mótmælunum.
Quanau sagði að um friðsöm mótmæli væri að ræða að frumkvæði almennings sem umrædd samtök hefðu ákveðið að taka þátt í. Ahmed Abu Artema, sem hefur verið í forsvari fyrir mótmælin, hefur lýst efasemdum um fullyrðingar Hamas-samtakanna.
„Persónulega efast ég um þessa tölu,“ sagði hann í samtali við CNN. „Þetta er kenning, ég trúi því ekki að [al-Bardaweel] hafi staðfest þessa tölu. Fréttamaðurinn ögraði honum með spurningunni.“ Jafnvel þó ummælin væru rétt þá væru áðurnefnd pólitísk og hernaðarleg samtök hluti af palestínsku samfélagi.