Tveir Palestínumenn til viðbótar látnir

Palestínumaður í eldhafi við landamæragirðingarnar að Ísrael. Mótmælendur kveiktu m.a. …
Palestínumaður í eldhafi við landamæragirðingarnar að Ísrael. Mótmælendur kveiktu m.a. í dekkjum. AFP

Tveir Palestínumenn létust í dag af sárum sem þeir hlutu er ísraelskir hermenn skutu á þá í mótmælum á Gaza á mánudag. Þetta segir heilbrigðisráðuneytið á Gaza. 

Mennirnir tveir voru 29 og 58 ára gamlir. Þar með er tala látinna eftir mótmæli og aðgerðir Ísraelshers á mánudag komin upp í 61. 

Á mánudag mótmæltu tugir þúsunda Palestínumanna flutningi bandaríska sendiráðsins til Jerúsalem. Fólk úr röðum mótmælenda réðst að landamæragirðingunum sem Ísraelsmenn hafa komið upp við landamærin að Gaza. Segir ísraelski herinn að skothríð hermanna hafi verið viðbrögð við þeim aðgerðum.

Palestínumenn hafa frá því 30. mars ítrekað komið saman og krafist þess að fá að snúa aftur til húsa sem þeir segjast hafa verið hraktir frá í kjölfar þess að Ísraelsríki var stofnað fyrir sjötíu árum. 

118 Palestínumenn hafa fallið á þessum rúmum sex vikum að sögn yfirvalda á Gaza. 

Ísraelar segjast hafa reynt allt sem í þeirra valdi standi til að lágmarka mannfall almennra borgara og að skotum hafi aðeins verið beitt þegar öll önnur úrræði hafi verið reynd. Ísraelski herinn sakar Hamas-samtökin, sem fara með völd á Gaza, um að vinna skemmdarverk á landamæragirðingum í skjóli fjöldamótmælanna. Hafa þeir meðal annars sakað Hamas-liða um að hafa ráðist á hermenn og undirbúið sprengjuárásir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert