Rohingjar sakaðir um fjöldadráp á hindúum

Verkamenn við vegavinnu í Rakhine héraði. Rohingjar, sem sætt hafa …
Verkamenn við vegavinnu í Rakhine héraði. Rohingjar, sem sætt hafa ofsóknum búrmíska hersins, eru ekki eini minnihluta hópurinn sem býr í héraðinu. AFP

Uppreisnarmenn úr minnihlutahópi rohingja múslima myrtu íbúa í þorpum hindúa í Rakhine-héraði í Búrma á sama tíma og búrmíski herinn hóf herferð sína gegn rohingjum í landinu. Þetta kemur fram í skýrslu sem mannréttindasamtökin Amnesty International birtu í dag og sem þykir varpa nýju ljósi á hinar flóknu þjóðfræðilegu deilur í Rakhine héraði.

Drápin áttu sér stað þann 25. ágúst í fyrra að því er fram kemur í skýrslunni, en þann sama dag stóðu uppreisnarmenn rohingja einnig fyrir bannvænum árásum á eftirlitsstöðvar lögreglu í héraðinu.

Herinn í Búrma brást við með harkalegum aðgerðum sem leiddu til þess að um 700.000 rohingja múslimar neyddust til að yfirgefa heimkyni sín í Búrma, þar sem meirihluti íbúa eru búddistar. Rohingjar hafa búið við ofsóknir í Búrma um árabil.

Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt aðgerðir hersins jafngilda „þjóðernishreinsunum“ og eru bæði hermenn og íbúar sem tóku lögin í eigin hendur sakaðir um að hafa myrt almenna borgara og fyrir að brenna þorp þeirra til grunna.

Sýndu rotin lík í fjöldagröfum

Uppreisnarmenn rohingja hafa þó einnig verið sakaðir um grimmdarverk, m.a. fjöldadráp á hindúum í norðurhluta Rakhine-héraðs. Segir AFP-fréttastofan búrmíska herinn hafa farið með fréttamenn á staðinn og sýnt þeim rotin í lík í fjöldagröfum á svæðinu.

Flóttamenn úr röðum Rohingja safnast saman bak við gaddavírsgirðingu á …
Flóttamenn úr röðum Rohingja safnast saman bak við gaddavírsgirðingu á „einskismannslandinu“ milli Búrma og Bangladess. Um 700.000 rohingjar hafa flúið til Bangladess frá því í ágúst í fyrra. AFP

ARSA, uppreisnarsveitir rohingja, hafna hins vegar alfarið ábyrgð á drápunum. Amnesty International segir rannsókn samtakanna þó hafa staðfest aftöku 53 hindúa, sem flestir voru börn, í Kha Maung Seik þorpinu.

„Að ábyrgð verði tekin á þessum grimmdarverkum er engu minna mikilvægt en gagnvart þeim mannréttindabrotum sem búrmíski herinn stóð að í Rakhine-héraði,“ sagði Tirana Hassan hjá Amnesty International.

Í skýrslu samtakanna er vísað í samtöl við átta einstaklinga sem lifðu árásina af og segja þeir tugi manna hafa verið safnað saman, því næst hafi verið bundið fyrir augu þeirra og farið með þá út úr þorpinu í fylgd borgaralega klæddra rohingja.

„Þeir slátruðu mönnunum“

„Þeir slátruðu mönnunum. Okkur var sagt að horfa ekki á þá ... Þeir voru með hnífa. Þeir voru líka með skóflur og járnstangir,“ sagði hinn 18 ára gamli Raj Kumari við Amnesty. Sjálfur kvaðst hann hafa falið sig í skóginum og hafa horft á þegar faðir hans, bróðir og frændi voru drepnir.

Í skýrslu Amnesty segir að 46 íbúar nágrannaþorpsins Ye Bauk Kyar hafi horfið sama dag og telja aðrir íbúar ARSA hafa verið þar að verki.

Þó að meirihluti íbúa Rakhine-héraðs hafi verið búddistar og múslimar áður en meirihluti rohingja var hrakinn þaðan á brott, bjó einnig minnihlutahópur hindúa í héraðinu og hefur gert frá tímum breska heimsveldisins. Segir AFP nokkra minnihluta hópa til viðbótar einnig búa í héraðinu.

„Morðingjarnir flúðu til Bangladess. Það er fjölmörg vitni, en við höfum ekki fengið neitt réttlæti,“ sagði Ni Maul leiðtogi hindúa í Rakhine við AFP.

„Það er minni áhugi á þessum morðum,“ sagði hann í samanburði við misþyrmingarnar sem rohingjar hafa sætt.

Hafna ásökununum

Stjórnvöld í Búrma hafa sætt mikilli gagnrýni alþjóðasamfélagsins í kjölfar ofsókna hersins í garð rohingja. Stjórnvöld hafa hins vegar alfarið hafnað ásökununum og hafa þess í stað sakað mannréttindasamtök um að styðja rohingja. Hafa þau þess í stað reynt að beina athyglinni að þjáningum annarra minnihlutahópa í héraðinu.

„Það er mikilvægt að alþjóðasamfélagið samþykki ekki aðgerðir ARSA með þrýstingi sínum á búrmísk stjórnvöld,“ sagði talsmaður stjórnvalda Zaw Htay er hann var spurður út í skýrslu Amnesty.

Aðrir hafa hins vegar bent á að skýrslan styrki frekar rökin fyrir því að stjórnvöld í Búrma eigi að leyfa óháða rannsókn á deilunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert