Sú ákvörðun Donald Trumps Bandaríkjaforseta að hætta við fyrirhugaðan fund sinn með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, vakti mikla undrun hjá Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, og leiddi til mótmæla í Suður-Kóreu.
Þó að Trump hafi nú gefið til kynna að hann sé mögulega hættur við að hætta við fundinn með Kim, þykja viðbrögð forsetans í málinu vera ágætis dæmi um það viðhorf sem sumar þjóðir er hafa verið langvarandi bandamenn bandarískra stjórnvalda hafa fengið að kynnast eftir að Trump tók við.
Segir fréttastofa CNN Trump hafa dregið í efa langvarandi tengsl, hann hafi móðgað nágrannaríki Bandaríkjanna, hótað sumum elstu samstarfsríkum Bandaríkjanna með innflutningsgjöldum og gefið skýrt til kynna að hann muni setja viðskiptabann á þá fylgi þeir honum ekki að málum. Í stuttu máli þá komi forsetinn fram við suma bandamanna Bandaríkjanna eins og þeir væru þjóðinni óvinveittir.
Stuðningsmenn forsetans segja þetta vera dæmi um „frið í gegnum styrk“ stefnu forsetans - að Bandaríkin sýni hernaðarlegan og efnahagslegan styrk sinn til að móta heiminn að sinni mynd. Sjálfur sagði Trump við útskriftarnema í sjóhernum í Annapolis á föstudag að heimurinn „virði“ Bandaríkin nú á ný. „Veikleiki er öruggasta leiðin að deilum og óskorað vald er öruggasta aðferðin til að verja okkur,“ sagði Trump við útskriftarnemana.
CNN segir persónuleika Trumps, kosningaloforðin og sú mikla áhersla sem hann leggur á innanlandsmál hafa mikil áhrif á samband Bandaríkjanna við umheiminn.
„Samband Trumps við bandamenn er mjög ólíkt því sem við eigum að venjast frá fyrri ríkisstjórnum,“ segir Aaron David Miller, aðstoðarforstjóri Wilson Center.
Hótanir stjórnar Trump í garð bandamanna snúast ekki svo mikið um „ef þú ert ekki með okkur þá ertu á móti okkur, heldur segir þessi stjórn „Þið eruð með okkur jafnvel þó að þið viljið það ekki. Við tökum ykkur með okkur“,“ segir Suzanne Maloney, stjórnandi hjá Brooking Institution.
Gagnrýnendur segja ákvarðanir Trumps í alþjóðamálum og framkoma hans í garð bandamanna grafa undan hagsmunum Bandaríkjanna og trausti í garð stjórnvalda þar í landi. Hefur það m.a. vakið undran að Moon frétti ekki af ákvörðun Trumps að hætta við fundinn með Kim fyrr en fjölmiðlar greindu frá henni, þar sem bandarísk stjórnvöld höfðu ekki látið hann vita fyrirfram.
Demókrataþingmaðurinn Eliot Engel sem situr í utanríkisnefnd þingsins gagnrýndi ákvörðun forsetans að hætta við fundinn með Kim og sagði Trump gera bandamenn Bandaríkjanna sér afhuga, þá dragi hann í efa gildi samstarfsþjóða og „grafi undan trúverðugleika Bandaríkjanna um heim allan“. of New
Hefur Engel og aðrir bent á að ímynd Bandaríkjanna á alþjóðavísu sem leiðandi þjóð hafi beðið hnekk og færri treysti þeim nú, líkt og skoðanakönnun Gallup í janúar hafi sýnt fram á.