Palestínumenn ýttu bátum úr vör frá Gaza í dag til að mótmæla því að Ísraelar hafa bannað þeim að fara lengra en níu sjómílur frá landi. Aðgerðirnar eru taldar auka enn frekar á þá spennu sem ríkir á svæðinu.
Einn stærri bátur með um tuttugu manns um borð fór frá höfninni í Gaza-borg í dag í fylgd með nokkrum smærri bátum að því er blaðamenn AFP-fréttastofunnar sem eru á vettvangi segja.
Fréttum ber ekki saman um hvort bátarnir muni sigla út fyrir þau mörk sem Ísraelar hafa sett, þ.e. níu sjómílurnar. Einhverjir úr hópi skipuleggjenda segja að aðeins sé um mótmæli að ræða en aðrir sem tekið hafa þátt í aðgerðunum segja að þeir vilji fara út fyrir mörkin.
Þá er enn óljóst hvernig Ísraelsher hyggst bregðast við og hafa forsvarsmenn hersins ekki tjáð sig um aðgerðirnar.
Fyrr í dag sögðu talsmenn hersins að sprengjum hefði verið skotið frá Gaza og að Ísrael en að varnarkerfi þeirra hefði eytt þeim flestum og að enginn hefði særst. Ein sprengjan er sögð hafa lent í nágrenni leikskóla en að engin börn hafi verið á svæðinu. Herinn svaraði með loftárásum á herstöð Hamas-samtakanna á Gaza. Enn hafa ekki borist fréttir um mannfall.
Gaza-svæðið hefur verið í herkví Ísraela í meira en áratug. Ísraelar segja þetta nauðsynlegt til að koma í veg fyrir árásir skæruliða.
Palestínumenn á Gaza hófu mikil mótmæli við landamæragirðingarnar að Ísrael í lok mars. Krefjast þeir þess að Palestínumenn sem flúðu eða voru reknir frá heimahögum sínum í stríðinu árið 1948, er verið var að stofna Ísraelsríki, fái að snúa aftur til heimila sinna sem nú eru innan landamæra Ísraels.
Að minnsta kosti 121 Palestínumaður hefur fallið í þeim átökum sem brotist hafa út í kringum mótmælin.