Conte nýr forsætisráðherra Ítalíu

Giuseppe Conte nýr forsætisráðherra og forseti Ítalíu, Sergio Mattarella, takast …
Giuseppe Conte nýr forsætisráðherra og forseti Ítalíu, Sergio Mattarella, takast í hendur eftir að samkomulag náðist um myndun nýrrar ríkisstjórnar á Ítalíu eftir þriggja mánaða stjórnarkreppu. AFP

Giuseppe Conte mun sverja embættiseið sem nýr forsætisráðherra Ítalíu í dag eftir að samkomulag náðist um myndun ríkisstjórnar. Forseti Ítalíu, Sergio Mattarella, samþykkti að þessu sinni valið á ráðherrum í nýrri ríkisstjórn. 

Fyrr í vikunni hafði Mattarella hafnað vali á fjármálaráðherra sem Conte hafði lagt fram fyrir hönd Bandalagsins og hreyfingarinnar Fimm stjörnur.

Leiðtogi hreyfingarinnar Fimm stjörnur, Luigi Di Maio, verður ráðherra hagþróunar en Paolo Savona sem Mattarella hafnaði að yrði fjármálaráðherra landsins verður ráðherra Evrópumála en hann er harður efasemdamaður um Evrópusamstarfið.

Þingkosningar fóru fram á Ítalíu í mars og hefur gengið illa að mynda starfhæfa ríkisstjórn og fyrir tveimur dögum benti allt til þess að kjósa yrði að nýju. Þegar forsetinn hafnaði valinu á efnahagsmálaráðherranum hafði það mikil áhrif á fjármálamarkaði landsins. 

Conte, sem er lítt þekktur lögmaður og nýliði í stjórnmálum, kynnti val sitt á ráðherrum eftir að hafa átt fund með Mattarella í gærkvöldi.

Leiðtogi Bandalagsins, Matteo Salvini, verður innanríkisráðherra. Ráðherra efnahagsmála verður Giovanni Tria, hagfræðingur sem vill að Ítalía verði áfram innan evru-svæðisins og berst fyrir skattalækkunum.

Enzo Moavero Milanesi, sem er mikill sérfræðingur í málum Evrópusambandsins, verður utanríkisráðherra. Af 18 ráðherrum eru aðeins fimm konur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert