Etur starfsfólki gegn hvert öðru

Donald Trump Bandarikjaforseti hefur látið ófáa starfsmenn taka pokann sinn …
Donald Trump Bandarikjaforseti hefur látið ófáa starfsmenn taka pokann sinn frá því hann tók við embætti. Hann þykir líka duglegur að etja starfsfólki Hvíta hússins gegn hvert öðru. AFP

Donald Trump nálgast það nú að hafa setið á forsetastóli í 500 daga og hefur forsetatíð hans einkennst að daglegu flóði Twitter-skilaboða, móðgunum, náðunum og hótunum. Viðskiptastríð virðist vera í uppsiglingu og hefur forsetinn sveiflast í afstöðu sinni til leiðtogafundar sín og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu.

Ráðherrum stjórnarinnar og hátt settum embættismönnum í Hvíta húsinu virðist ganga illa að hafa stjórn á forsetanum, sem virðist  ekki líta á stjórn landsins sem samstarfsverkefni, heldur eins manns verk.

Í grein Guardian um málið segir að Trump sinni forsetaembættinu líkt og hann væri forstjóri fyrirtækis.

„Ég held að við séum komin með nokkuð skýra mynd af honum núna,“ segir Michael Steele fyrrverandi formaður landsnefndar Repúblikanaflokksins. „Hann er ekki forseti sem telur sig þurfa á öðrum að halda. Þetta er „ég“ forsetatíð. Maður heyrir það í hverri ræðu og sér það í öllum Twitter-skilaboðum. Þetta snýst allt um hann sjálfan. Allt sem gerist í hans forsetatíð, mun standa og falla með honum sjálfum.“

Nýtur þess að sjá starfsfólk berjast innbyrðis

Á fyrstu mánuðum Trump í embætti töldu margir að barátta yrði milli stríðandi fylkinga innan Hvíta hússins að fá hann á sitt vald og nota til að koma málum að. Umræða um baráttu milli alþjóðasinnaðra fjármálamanna og hægri poppúlista hefur hins vegar þagnað að mestu, enda virðist nú vera hver höndin upp á móti annarri í Hvíta húsinu.  Þannig eru deilur milli fjármálaráðherrans  Steven Mnuchin, og viðskiptaráðgjafans, Peter Navarro, sagðar hafa leyst upp í hávaðarifrildi í síðasta mánuði vegna viðræðna um viðskiptasamninga við Kína.

Kelly Sadler, sem lét niðrandi orð falla um heilsu öldungadeildarþingmannsins John McCain, sagði forsetanum frammi fyrir öðru samstarfsfólki að hún teldi yfrmann sinn Mercedes Schlapp, vera eina þeirra sem leki hvað mestum upplýsingum úr Hvíta húsið. Schlapp varðist orðum hennar harkalega á meðan að Trump fylgdist með, að því er fréttavefurinn Axios greindi frá.

„Hann fær næstum sadíska ánægju af því að fylgjast með starfsfólki sínu mynda flokka og berjast innbyrðis,“ segir Steele. „Viðskiptabakgrunnur hans undirbjó hann hins vegar ekki undir lekana. Það var ein stefnuskrá í Trump Tower. Í Hvíta húsinu er ekki ein stefnuskrá og hann er nú búinn að læra að fólk kemur með sína eigin stefnuskrá. Að stærstu leyti þá nýtur hann þó þess að horfa á starfsfólk sitt haga sér eins og börn á leikvelli.“

Fylgir eigin eðlisávísun og skipar eigin stefnu

Fjölmargir hafa ýmist hætt eða verið látnir taka pokann sinn í forsetatíð Trump. Listinn yfir fyrrverandi starfsmenn Hvíta hússins er orðinn langur og eru samskiptastjórinn Hope Hicks og aðalráðgjafinn Steve Bannon þeirra á meðal. Trump hefur ráðið í hvoruga þessara stöðu á ný. „Hann er sinn eigin samskiptastjóri og hann fylgir sinni eigin eðlisávísun. Hann skipar sína eigin stefnu og fylgir aftur eðlisávísun sinni,“ segir Steele.

Undanfarna viku hefur eðlisávísunin sagt Trump að hækka skatta á stál- og álinnflutning frá ríkjum ESB, Kanada og Mexíkó, sem til þessa hafa talist til bandamanna Bandaríkjanna og með því skapað hættu á viðskiptastríði. Þá kom hann skyndilega aftur á fundi með Kim í Singapore og kvaðst við það tækifæri ekki vilja „beita fullum þrýstingi áfram“. Eins sakaði hann New York Times um að búa til heimildamann í frétt þar sem vitnað var í nafngreindan embættismann í Hvíta húsinu sem fundaði með fréttamönnum. Enn fremur lýsti hann því yfir að hann óskaði þess að hann hefði skipað einhvern annan en Jeff Sessions í embætti dómsmálaráðherra og fullyrti að hann hefði ekki rekið James Comey fyrrverandi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI vegna Rússa rannsóknarinnar.

Þá hafa hafa náðanir forsetans ekki síður vakið furðu, en meðal þeirra sem hann hefur náðað eru Rod Blagojevich, fyrrverandi ríkisstjóri Illinois, og Martha Stewart, en bæði tengdust þau raunveruleikaþætti Trumps Apprentice. Hafa margir velt því fyrir sér hvort að með þessu sé Trump að senda Robert Mueller, sérstökum saksóknara FBI í Rússarannsókninni skilaboð um að sýni hann af sér trygglyndi þá verði allt fyrirgefið.

Venjulega væri það hlutverk starfsmannastjóra að grípa fram fyrir hendurnar á forseta og bjarga honum þannig frá sjálfum sér. John Kelly, sem tók við starfinu af Reince Priebus, virðist hins vegar ekki hafa neina stjórn á Twitter gleði Trumps. Er hann talinn verða æ valdaminni í Hvíta húsinu. Þá virðast áhrif Jared Kushners, tengdasonar forsetans, einnig fara minnkandi.

Aðstoðarsölumaðurinn Giuliani 

Þeir starfsmenn sem Trump hefur ráðið í seinni tíð eiga það hins vegar allir sameiginlegt að gera lítið annað en að samsinna honum. Þannig segir Guardian þjóðaröryggisráðgjafann, John Bolton, efnahagsráðgjafann, Larry Kudlow, og lögfræðing hans, Rudy Giuliani, ala á duttlungum forsetans frekar en að reyna að stöðva hann.

„Þetta er fyrsti forsetinn sem ég man eftir, að Richard Nixon meðtöldum, sem hlustar bara á þá sem eru honum sammála,“ segir Bob Shrum 74 ára kænskumeistari Demókrataflokksins. „Ég held að þetta fari bara versnandi. Ef það er einhver breyting, þá er hún bara í áttina að hvatvísum, einhliða og vanhugsuðum ákvörðunum.“

Trump er sölumaður,“ segir Gwenda Blair, sem hefur skrifað ævisögðu hans. „Nú er hann komin með aðstoðarsölumann [í Giuliani]. Hann lítur ekki á Giuliani sem keppinaut. Giuliani er þarna af því að hann getur fengið athygli fjölmiðla.“ Giuliani hefur vakið athygli fyrir að vera samhengislaus í viðtölum við fjölmiðla, en um leið unnið að því ötullega að gera Mueller tortryggilegan.

„Núna er Trump með tvennt til að dreifa athyglinni,“ segir Blair. „Það skiptir ekki máli að þeir séu í mótsögn við hvor annan af því að þeir fá fyrirsagnirnar.“

Segir Blair stjórnunarstíl forsetans einkennast af áratuga vinnu hans í fasteignaviðskiptum. „Þetta er það sem hann gerði alltaf. Hann er innsti koppur í búri og allir aðrir eru aukahlutir. Hann etur öllum gegn hver öðrum og lætur skyldur þeirra ekki skarast svo þeir svari honum einum. Það er stöðugt umrót. Fyrst er einhver hylltur, svo er hann víttur. Hann elskar þá fyrst og rekur svo. Þetta er það sem hann hefur gert alla sína starfsævi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka