Norska hitabylgjan í tölum

Fréttavefurinn birti myndir frá Sola-ströndinni utan við Stavanger í síðustu …
Fréttavefurinn birti myndir frá Sola-ströndinni utan við Stavanger í síðustu viku þar sem meðal annars Íslendingar léku við hvern sinn fingur í vorþeynum en nánast er sama hvert litið er í Noregi, þar hefur upp á síðkastið hár hiti leikið við himin sjálfan, eins og segir í Völuspá. Helena Rúnarsdóttir tók þessa mynd á ströndinni í Sola. Ljósmynd/Helena Rúnarsdóttir

Fáir ef nokkur fréttamiðill í Norður-Evrópu hefur heykst á því að fjalla um hitabylgjuna sem þar hefur riðið húsum undanfarnar vikur og hafa skandinavísku ríkin sannarlega ekki farið varhluta af þessu sérstaka veðurfyrirbæri en annar eins hiti hefur ekki vermt Norðmenn í meira en hundrað ár í maímánuði. Dagblaðið Aftenposten tók saman tölfræði sem vafalítið mun lengi í minnum höfð Norðmanna á meðal.

Í maí...

...seldust 5,5 milljónir lítra af ís hjá framleiðandanum Hennig-Olsen einum og greinir John Kjellesvik sölustjóri frá því að þar á bæ hafi önnur eins sala aldrei sést.

...ók drykkjarvöruframleiðandinn Ringnes út tveimur milljónum lítra af gosdrykkjum og bjór að meðaltali hvern einasta dag.

...seldi raftækjaverslunin Elkjøp 416 prósent fleiri viftur en í maí 2017. „Við seldum fleiri viftur í gær en allan maímánuð í fyrra,“ segir Thomas Martinsen, sölustjóri eldhús- og smærri raftækja hjá Elkjøp.

...jókst miðasala í ferjusiglingar um Óslóarfjörðinn um 68 prósent miðað við sama mánuð í fyrra ef marka má tölur samgöngufyrirtækisins Ruter sem rekur strætisvagna og ferjur Óslóar.

...hækkaði kílóverð ferskra rækja úr 132 norskum krónum í 348 en fátt fær norsk hjörtu til að slá hraðar í sól og sumaryl en brauð með rækjum og majónesi ásamt ísköldu hvítvíni eða bjór.

...mældist mesti hiti sem mælst hefur í þeim mánuði ársins, 32,7 gráður, í Etne í Hordaland-fylki, 73 aðrar mælingastöðvar mældu hærra hitastig en mælst hefur síðan mælingar hófust árið 1900, fyrir 118 árum.

...var meðalhitastig 4,2 gráðum hærra en aðra maímánuði.

...mældist „hitabeltisnótt“ (n. tropenatt) í fyrsta sinn síðan árið 1981 í Eigerøya og Lindesnes en svo er það kallað þegar hitastig fer aldrei undir 20 gráður heilan sólarhring.

...seldi AGA-gasframleiðandinn rúmlega 11.000 própangaskúta á einum og sama deginum (sem reyndar kemur ekki fram í frétt Aftenposten en sá sem þetta skrifar vinnur þar).

Sá galli er þó á gjöf Njarðar að mörg hundruð skógareldar hafa blossað upp í Noregi þennan sjóðheita og þurra maímánuð og hefur skógareldur í Ombo í Rogaland logað í eina viku þegar þetta er skrifað eins og fjöldi norskra fjölmiðla hefur fjallað um, svo sem Dagsavisen, ABC Nyheter og NRK. Einnig greindu norskir fjölmiðlar fyrir helgi frá algjöru grillbanni í mörgum sveitarfélögum í Rogaland sem gengur svo langt að fólki á þeim stöðum er óheimilt að kveikja upp í grillinu í sínum eigin garði eins og mbl.is fjallaði um.

Samkvæmt vef norsku veðurstofunnar verður ekkert lát á blíðunni að minnsta kosti næstu vikuna en eftir það gætu reynst blikur á lofti. Terje Alsvik Walløe, veðurfræðingur norsku veðurstofunnar, sem er daglegur gestur í stofum allra landsmanna með veðurspá sína í fréttatíma NRK, ræddi við mbl.is nú undir kvöld. „Jú jú, þessu lýkur nú einhvern tímann. Líklega sjáum við fram á örlítið lægri hitatölur núna eftir helgina og veðurstofan reiknar með skýjahulu á þriðjudag og miðvikudag en svo rýkur hitinn líklega upp aftur,“ útskýrir Walløe.

Terje Alsvik Walløe, einn af góðkunningjum norsku þjóðarinnar sem flytur …
Terje Alsvik Walløe, einn af góðkunningjum norsku þjóðarinnar sem flytur veðurfregnir af skjánum hjá NRK nær daglega og má kannski segja að þar sé kominn Trausti Jónsson Noregs. Ljósmynd: Norska ríkisútvarpið NRK

En hvernig stendur á því að hátt í 30 stiga hiti hefur mælst í Noregi nær allan maímánuð? „Það er vegna þess að hér hefur hvert háþrýstisvæðið rekið annað vikum saman auk þess sem himinn hefur verið skafheiður og í sameiningu hefur slíkt veðurástand auðvitað mikil áhrif. Þessi hiti kemur frá Suðaustur-Evrópu og mér sýnist að við megum reikna með þessu að minnsta kosti eina viku í viðbót en eftir það veit ég ekkert hvað tekur við,“ segir Walløe með dillandi hlátri áður en mbl.is þakkar einum litríkasta veðurfræðingi landsins fyrir spjallið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka