Blindfullir, gólandi og óviðeigandi?

Veður var gott í Kaupmannahöfn í dag eins og undanfarnar …
Veður var gott í Kaupmannahöfn í dag eins og undanfarnar vikur. Einhverjir voru þrátt fyrir það pirraðir á ströndinni. AFP

Íbúi í Amager í Kaupmannahöfn segir að það sé ómögulegt að njóta þess að vera á ströndinni í höfuðborg Danmerkur án þess að verða fyrir truflunum frá fullu fólki sem sé þar með læti. Íbúinn skrifar færslu um málið í Facebook-hópinn Amager og kvartar sáran undan drykkjulátum Íslendinga.

Íslendingafélagið í Kaupmannahöfn hélt 17. júní fagnað á Femøren fyrr í dag en konan sem skrifar færsluna segir að í dag hafi verið samankominn „fáránlegur“ fjöldi Íslendinga á ströndinni.

„Ég hef aldrei séð jafn margt fólk blindfullt, gólandi, óviðeigandi og með læti á einum og sama staðnum á ævi minni,“ skrifar konan og bætir við að hún hafi sjálf alveg gaman af góðum veislum.

„Mæður með börn á brjósti þambandi tekíla,“ skrifar konan. Auk þess kvartar hún yfir háværri og drepleiðinlegri tónlist, fólki sem henti dóti á handklæðið hennar og að margir hafi þurft að yfirgefa ströndina út af þessum Íslendingum.

„Á þetta að vera svona?“

Hlægileg færsla

Færsla konunnar fær ekki þær undirtektir sem hún hefur líkast til vonast eftir. Margir spyrja hvort henni sé alvara með færslunni og einhverjir benda henni á að margir þessara „fullu Íslendinga“ hafi verið með börn á ströndinni.

„Ég er með hugmynd handa þér: Þú getur flutt á eyðieyju en þar munu engin læti trufla þig,“ skrifar einn Daninn og bætir því við að hann elski að búa á Amager.

Færslunni er deilt í hópinn „Íslendingar í Kaupmannahöfn.“ Þar er ýmist hlegið að færslu konunnar eða bent á að enginn annar hafi tekið eftir þessu meintu fylleríslátum. Aðrir tala um að dagurinn hafi verið yndislegur og 17. júní skemmtunin hafi heppnast vel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert