Donald Trump Bandaríkjaforseti lagði til á leiðtogafundi G7 ríkjanna sem fór fram í Kanada að allir tollar og aðrar viðskiptahindranir milli ríkjanna yrðu felld niður. Aðrir fundargestir voru þessu ekki sammála og ekkert samkomulag náðist um tollamál.
Ákvörðun Trumps um að setja tolla á innflutning á stáli og áli til Bandaríkjanna er umdeild og voru aðrir leiðtogar G7-ríkja afar óánægðir með þá ákvörðun. Auk þess voru leiðtogarnir ósáttir við einhliða ákvörðun Trump um að slíka samkomulaginu við Íran.
Bandaríkjaforseti sagði að fundi loknum í dag að viðræðurnar hefðu verið „mjög árangursríkar“ þrátt fyrir mikla spennu meðal leiðtoganna. Aðrir leiðtogar G7-ríkja hafa ekki tjáð sig um hugmynd Trumps, þó Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafi birt mynd á Instagram-síðu sinni sem þykir segja meira en mörg orð:
„Engir verndartollar, engar hindranir. Þannig ætti það að vera. Engar niðurgreiðslur. Ég sagði meira að segja „enga verndartolla“!“ sagði Trump þar sem hann lýsti fundinum.
Hann sagði að Bandaríkin hefðu staðið höllum fæti gagnvart öðrum meðlimum G7 og að viðskiptasamningar séu þeim óhagstæðir. Auk þess lýsti hann Bandaríkjunum sem „sparibauk sem allir ræna“.
Trump yfirgaf fundinn snemma þar sem hann er á leið til Singapúr þar sem hann mun eiga fund með leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un á þriðjudag.