Peter Navarro, viðskiptaráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, segir að Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hafi ekki viljað eiga góð samskipti við Trump á fundi G7-ríkjanna um helgina.
„Það er sérstakur staður í helvíti fyrir hvern þann erlenda leiðtoga sem efnir til slæmra samskipta við Donald Trump Bandaríkjaforseta og reynir síðan að stinga hann í bakið á leiðinni út um dyrnar,“ sagði Navarro.
„Það gerði Justin Trudeau í slæmri trú á blaðamannafundinum og þetta var óheiðarlegt af hans hálfu,“ bætti hann við.
„Ég vil segja við vini mína í Kanada að það er langt síðan kanadískur leiðtogi hefur misreiknað sig eins mikið og þarna.“
Trump sagði á Twitter að Kanada græddi mikið á viðskiptum sínum við Bandaríkin á sama tíma og Bandaríkin fái lítið til baka.
Fair Trade is now to be called Fool Trade if it is not Reciprocal. According to a Canada release, they make almost 100 Billion Dollars in Trade with U.S. (guess they were bragging and got caught!). Minimum is 17B. Tax Dairy from us at 270%. Then Justin acts hurt when called out!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) June 11, 2018