Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, undirrituðu sáttmála á sjötta tímanum í morgun.
Í sáttmálanum lýsir Kim sig reiðubúinn til að taka þátt í kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaganum. Að sögn AFP-fréttastofunnar var ekkert minnst í sáttmálanum á kröfur Bandaríkjanna um „algjöra og óafturkræfa kjarnorkuafvopnun“, heldur var hann óljósari varðandi afvopnunina.
„Við munum hittast aftur,“ sagði Trump eftir að sáttmálinn hafði verið undirritaður. „Við munum hittast mörgum sinnum.“
Forsetinn sagði leiðtogana tvo hafa myndað „sérstök tengsl“ á fundinum. Bætti hann við að hann væri tilbúinn til að bjóða norðurkóreska leiðtoganum í Hvíta húsið.
"The world will see a major change" - Kim Jong-un's words as he and Donald Trump sign a "historic" document after #TrumpKimSummit https://t.co/slT5YzZ7IR pic.twitter.com/PEVsdA1XjR
— BBC Breaking News (@BBCBreaking) June 12, 2018
Forsetinn sagði þennan sögulega fund hafa gengið vel og að kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaganum muni hefjast „mjög flótlega“.
Kim var einnig ánægður með fundinn. „Í dag áttum við sögulegan fund og ákváðum að horfa fram á veginn en ekki til fortíðar,“ sagði hann og þakkaði Trump fyrir fundinn. „Heimurinn á eftir að sjá mikla breytingu.“