Nýútgefnar ferðadagbækur eðlisfræðingsins og Nóbelsverðlaunahafans Alberts Einsteins geyma lýsingar sem einkennast af bæði útlendingahræðslu og kynþáttahatri. Bækurnar skrifaði Einstein á tímabilinu frá október 1922 til mars 1923 þegar hann var á ferð í Austurlöndum og Miðausturlöndum.
Í þeim er að finna neikvæðar alhæfingar um þjóðirnar sem hann heimsótti og kallar Einstein Kínverja þar m.a. „iðnaðarsama, skítuga og treggáfaða“ þjóð að því er BBC greinir frá.
Seinna á lífsleiðinni var Einstein ötull baráttumaður fyrir mannréttindum í Bandaríkjunum og sagði hann þá kynþáttahatur þá vera „sjúkdóm hvíta mannsins“.
Þetta er í fyrsta skipti ferðadagbækurnar hafa verið gefnar út á ensku í einni bók, en það er Princeton háskólaútgáfan sem gefur þær út.
Einstein ferðaðist frá Spáni til Miðausturlanda í október 1922, en þaðan hélt hann til Sri Lanka, sem þá hét Ceylon og svo áfram til Kína og Japan.
Eðlisfræðingurinn lýsir komu sinni til Said hafnarinnar í Egyptalandi með þeim orðum að þar hafi blasað við honum „Miðausturlandabúar í öllum litum ... líkt og þeim hafi verð spúað úr víti“ er þeir komu um borð til að selja varning sinn.
Þá lýsti hann íbúum Colombo í Ceylon sem svo að þeir „búa við mikinn óþrifnað og við töluverðan óþef á jörðu niðri, þeir gera lítið og þurfa lítið“.
Harðastur var Einstein hins vegar í lýsingum sínum á Kínverjum sem hann sagði vera „andlausa og trega“ og að það væri synd ef „Kínverjar boluðu öðrum þjóðum burt.“ Á öðrum stað segir hann Kínverja vera „sérstaka hjarðalega þjóð“ sem líkist „meira vélmennum en fólki“. Þá væri lítill munur á kínverskum körlum og konum.
Einstein hefur lengi verið þekktur fyrir vísindauppgötvanir sínar sem og baráttu sína fyrir mannréttindum. Hann flutti til Bandaríkjanna 1933 eftir að Adolf Hitler og Nasistaflokkurinn komust til valda í Þýskalandi og lýsti í ræðu sem hann flutti í Lincoln háskólanum í Pennsylvaníu 1946 kynþáttahatri sem „sjúkdómi hvíta mannsins“, en Lincoln háskólinn var fyrsti háskólinn í Bandaríkjunum þar sem svartir gátu öðlast háskólagráðu.