Deila um málefni hælisleitenda

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Deilur eru komnar upp á milli Kristilegra demókrata í Þýskalandi, flokks Angelu Merkel kanslara landsins, og systurflokki hans CSU í Bæjaralandi um málefni hælisleitenda. Deilurnar gætu þýtt endalok ríkisstjórnar flokkanna með jafnaðarmönnum.

Fram kemur í frétt AFP að viðræður standi yfir á milli Kristilegra demókrata og CSU um málið en leiðtogi síðarnefnda flokksins og innanríkisráðherra Þýskalands, Horst Seehofer, hefur lengi verið harður andstæðingur þeirrar frjálslyndu stefnu sem Merkel hefur rekið í málaflokknum og sem samið var um að fylgja áfram þegar ríkisstjórn var mynduð með jafnaðarmönnum fyrr á árinu.

Seehofer vill að þýsku lögreglunni verði heimilað að snúa öllum hælisleitendum við á landsmærum Þýskalands sem ekki geta framvísað gildum skilríkjum sem og þeim sem þegar hafa sótt um hæli annars staðar innan Evrópusambandsins. Merkel hefur hafnað þeirri hugmynd þar sem taka yrði tillit til hagsmuna annarra ríkja sambandsins.

Eins og staðan er í dag fá hælisleitendur, sem ekki geta framvísað skilríkjum eða hafa sótt um hæli annars staðar innan Evrópusambandsins, að koma til Þýskalands þar sem farið er yfir mál þeirra í stjórnsýslunni. Sumir þeirra eru síðan sendir til annarra ríkja innan sambandsins, hafi þeir sótt um hæli fyrst þar, eða til heimalanda þeirra.

Merkel hefur viljað taka á málinu á vettvangi Evrópusambandsins en CSU segir ekki hægt að bíða eftir næsta fundi á vettvangi sambandsins. Forsætisráðherra Bæjaralands, sem kemur úr röðum CSU, hefur sagt að hugsa verði fyrst um íbúa Þýskalands áður en hugsað sé um afganginn af Evrópusambandinu. 

Forystumenn innan CSU hafa lagt áherslu á að Seehofer hafi vald til þess að fyrirskipa lögreglunni að snúa við hælisleitendum á landsmærum Þýskalands. Komi hins vegar til þess myndi það þýða að Merkel yrði að reka hann úr ríkisstjórninni sem myndi setja stjórnarsamstarfið í uppnám.

Forysta CSU hyggst funda á mánudaginn og taka endanlega afstöðu til málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert