Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, þvertekur fyrir ásakanir um að miðstöðvar þar sem börn ólöglegra innflytjenda eru geymd líkist útrýmingarbúðum nasista. Sessions sagði í samtali við Fox fréttastöðina að stefna landamæraeftirlitsins við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna snérist einungis um að tryggja öryggi við landamærin.
Samkvæmt yfirvöldum hafa alls 2.342 börn verið aðskilin frá foreldrum sínum síðastliðinn mánuð og eru í umsjá yfirvalda í Bandaríkjunum á meðan foreldar þeirra bíða réttarhalda. Aðstaða þessara barna hefur verið harðlega gagnrýnd af bandarískum ráðamönnum og ýmsum mannúðarsamtökum, en Bandaríkin eru eina ríki heims sem ekki hafa lögleitt Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Samkvæmt honum eru bandarísk yfirvöld að brjóta á margvíslegum réttindum umræddra barna.
Í samtali sínu við Fox var Sessions spurður út í Twitter-færslu fyrrverandi forstjóra CIA, Michael Hayden, þar sem hann líkti aðgerðum landamæraeftirlitsins við útrýmingarbúðir nasista í Auschwitz í síðari heimsstyrjöldinni. Sessions sagði yfirlýsingu Hayden vera stórlega ýkta. „Í Þýskalandi nasismans leyfðu þeir gyðingunum ekki að yfirgefa landið. Við erum aðeins að framfylgja lögum. Vonandi nær fólk skilaboðunum og hættir að fara ólöglega yfir landamærin.“ Þá sagði fréttamaður Fox, Laura Ingraham, að miðstöðvarnar þar sem börnin væru geymd væru „í rauninni sumarbúðir“ fyrir börn ólöglegra innflytjenda.
Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna og fjórir forverar hennar eru á meðal gagnrýnenda miðstöðvanna. Donald Trump Bandaríkjaforseti mun í dag funda með þingmönnum repúblikana um að leggja fram frumvarp sem bindur enda á þessa stefnu Bandaríkjanna sem Sessions segist nú vera að framfylgja.