Brast í grát við fréttaflutninginn

Fréttir af aðskilnaði barna frá foreldrum sínum á landamærum Bandaríkjanna hafa vakið hrylling og sorg meðal fólks um allan heim. Fréttakona AP reyndi að segja slíka frétt í gærkvöldi en brast í grát. 

Sífellt meira er að koma í ljós varðandi aðbúnað barnanna og hafa jafnvel smábörn verið tekin frá foreldrum sínum og send í sérstakar búðir fyrir börn yngri en þrettán ára. Jafnvel börn á fyrsta ári. Þegar Rachel Maddow fréttamaður hjá AP sagði fréttina af búðunum í Suður-Texas brast hún í grát og endaði með því að gefast upp á því að flytja fréttina. 
Lögfræðingar og læknar sem hafa heimsótt búðirnar í Rio Grande segja að þarna séu leikherbergi yfirfull af grátandi smábörnum, segir í frétt Guardian.

„Hvenær fæ ég að hitta pabba?“

Þegar José kom til Michigan í lok maí var ruslapoki með skítugum fötum og tveimur teikningum það eina sem var í farteskinu. José, sem er fimm ára gamall, er frá Hondúras og kom til Bandaríkjanna ásamt föður sínum eftir að hafa flúið frá heimalandinu í gegnum Mexíkó til Bandaríkjanna. Önnur teikningin er af fjölskyldu hans í heimalandinu en hin af föður hans. Þegar þeir komu að bandarísku landamærunum í El Paso voru þeir feðgar skildir að, faðir hans handtekinn en José sendur til bandarískrar konu. Fjölskyldu hennar var treyst fyrir barninu. José var þögull á leiðinni „heim.“

Fyrstu næturnar grét hann sig í svefn en síðar breyttist gráturinn í stunur og vein, segir Janice fósturmóðir José í samtali við New York Times. Hann geymir myndirnar sínar undir koddanum.

Þetta er aðeins ein af mörgum frásögnum sem hafa birst af afdrifum fjölskyldna sem koma að landamærum Bandaríkjanna í þeirri von að fá þar hæli. 

Frá því José kom til fósturfjölskyldunnar hefur ekki liðið sá dagur sem hann spyr á spænsku: „Hvenær fæ ég að hitta pabba?“ Þau geta ekki svarað honum því þau vita það ekki. Enginn veit það. Þau segja honum sannleikann. Faðir José er í haldi og fær ekki, frekar en aðrir sem eru handteknir við komuna til landsins, að tala við fjölskyldu sína.

Janice, fósturmóðir José, segir söguna skrifaða fyrir framan hana og þetta sé hryllileg saga sem verið sé að skrifa. Janice, ásamt fjölskyldu sinni, er vön því taka á móti börnum á flótta en þau hafa undanfarin ár veitt börnum sem eru ein á flótta skjól. Flest þeirra eru að flýja ofbeldi eða fátækt í Hondúras, El Salvador eða Gvatemala. En þau hafa aldrei áður tekið á móti barni sem er tekið frá foreldri við komuna til Bandaríkjanna, aldrei. Barn sem óvíst er að fái að hitta fjölskyldu sína aftur. 

Hótaði móður brottvísun ef hún segði frá barnaníði

CNN fjallar um aðstoðarlögreglustjóra í Texas, Jose Nunez, sem er sakaður um að hafa nauðgað fjögurra ára gamalli stúlku. Hann lét það ekki nægja heldur hótaði móður hennar, en hún er óskráður innflytjandi í Bandaríkjunum, að henni yrði vísað úr landi ef hún segði frá ofbeldinu. Litla stúlkan er ættingi ofbeldismannsins. 

Að sögn lögreglustjórans, Javier Salazar, er grunur um að fleiri börn séu fórnarlömb níðingsins og að ofbeldið hafi staðið yfir í mánuði, jafnvel ár.

Salazar segir að málið sé skelfilegt og viðbjóðslegt. Vart sé hægt að lýsa því í smáatriðum. Ef Nunez verður dæmdur þá á hann yfir höfði sér allt að 25 ára fangelsi. Málið komst upp þegar móðirin kom með barnið á slökkvistöð um miðja nótt og bað um hjálp.

Stefna bandarískra yfirvalda hefur verið harðlega gagnrýnd um allan heim, þar á meðal hafa kirkjunnar þjónar, þar á meðal Frans páfi, gagnrýnt Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrir að skilja að börn frá foreldrum sínum. 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert