Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lofað að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að fjölskyldur innflytjenda verði aðskildar við komuna til Bandaríkjanna.
„Ég mun skrifa undir eitthvað innan tíðar sem mun tryggja það,“ sagði Trump við fréttamenn í Hvíta húsinu í dag. Trump hefur hingað til sagt að þingið eitt hafi vald til að breyta reglunum en hefur nú tekið málin í sínar hendur.
Nýjar reglur undir yfirskriftinni „Ekkert umburðarlyndi“ voru settar í maí og fela þær í sér að fólki sem reynir að komast til Bandaríkjanna með ólögmætum hætti yrði ekki sýnt neitt umburðarlyndi en margir þeirra ætla sér að sækja um hæli í Bandaríkjunum. Fólk er fangelsað og á yfir höfði sér saksókn. Þá eru börn aðskilin frá fjölskyldum sínum á landamærunum og komið fyrir í sérstökum búðum/móttökumiðstöðvum á vegum stjórnvalda (Department of Health and Human Services) og þaðan eru þau send til ættingja eða í fóstur.
Vinna stendur nú yfir í heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna undir forystu ráðherrans Kirstjen Nielsen þar sem verið er að undirbúa drög að tilskipun sem felur í sér að fjölskyldur verði ekki aðskildar við komuna til Bandaríkjanna.
Á sama tíma vill Trump hins vegar að innflytjendalöggjöfin verði hert og að fólk sem kemur til Bandaríkjanna með ólöglegum hætti má áfram eiga von á því að verða fangelsað og sótt til saka. Frumvarp um breytingar á innflytjendalögum verður tekið til umfjöllunar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings á morgun.