Sarah Huckabee Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, var beðin um að yfirgefa veitingastað í Virginíuríki í gærkvöldi sökum starfa hennar fyrir ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Sanders greinir frá þessu í tísti en eigandi veitingastaðarins mun hafa lagt það til við hana að víkja á brott.
Sanders segir gjörðir eigandans „segja mun meira um hana en um mig“.
Last night I was told by the owner of Red Hen in Lexington, VA to leave because I work for @POTUS and I politely left. Her actions say far more about her than about me. I always do my best to treat people, including those I disagree with, respectfully and will continue to do so
— Sarah Sanders (@PressSec) June 23, 2018
Um er að ræða þriðja sinnið á undanfarinni viku þar sem almennir borgarar reyna að láta í ljós óánægju sína í verki gagnvart embættismönnum eða starfsmönnum ríkisstjórnar Trumps.
Mótmælendur púuðu á og æptu að Kirstjen Nielsen, heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, þar sem hún snæddi á mexíkóskum veitingastað nærri Hvíta húsinu í Washingtonborg fyrr í vikunni. Hið sama var uppi á teningnum þegar ráðgjafi forsetans, Stephen Miller, hugðist gæða sér á mexíkóskum mat um svipað leyti.