Trump og Pútín gætu brátt fundað

Mikið hefur verið spáð í möguleika á fundi leiðtoganna í …
Mikið hefur verið spáð í möguleika á fundi leiðtoganna í fjölmiðlum bæði vestanhafs og -austan. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti mun að líkindum funda með Vladimír Pútín Rússlandsforseta áður en langt um líður, segir utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo.

Hvíta húsið tilkynnti á fimmtudag að þjóðaröryggisráðgjafinn John Bolton myndi fljúga til Moskvu í næstu viku til að kanna grundvöll mögulegs fundar leiðtoganna tveggja.

„Ég veit að Bolton hyggst ferðast til Moskvu á sunnudag eða mánudag. Hann mun þar funda með kollega sínum og ég tel líklegt að Trump forseti muni sjálfur funda með sínum kollega áður en langt um líður,“ sagði Pompeo í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina MSNBC.

Mikið hefur verið spáð í möguleika á fundi leiðtoganna í fjölmiðlum bæði vestanhafs og -austan, eftir að þeir ræddu fyrst fundaráformin í mars.

Óhætt er að segja að fundur sá myndi vera í brennidepli ef af yrði, ekki síst vegna áframhaldandi rannsóknar sérstaks saksóknara á afskiptum rússneskra stjórnvalda af bandarísku forsetakosningunum og mögulegu leynimakki með forsetaframboði Trumps.

Því hefur Trump ítrekað neitað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka