Kona frá Sádi-Arabíu ók í formúlu 1

Sádiarabísk kona stal senunni við upphaf keppnisdags í formúlu 1-kappakstrinum í Frakklandi er hún ók bíl Renault-liðsins til merkis um það að konur í Sádi-Arabíu mega loks frá og með deginum í dag aka bílum. 

Áfanganum er ákaft fagnað meðal margra kvenna í Sádi-Arabíu en það var Aseel Al-Hamad, fyrsti meðlimur akstursíþróttafélags landsins, sem settist við stýrið í kappakstursbílnum í dag. Þessum sama bíl ók Kimi Raikkonen árið 2012 er hann sigraði kappaksturinn í Abu Dhabi.

Aseel Al-Hamad ók hringinn í Frakklandi.
Aseel Al-Hamad ók hringinn í Frakklandi. Ljósmynd/Renault

Al-Hamad var hluti af skrúðakstri Renault-liðsins sem fram fór áður en sjálf keppnin sjálf hófst í morgun. Hún er ákafur áhugamaður um akstursíþróttir og hefur æft sig á keppnisbrautinni frá 5. júní. 

„Ég hef haft ástríðu fyrir kappakstri frá því að ég var mjög ung og að keyra um á formúlu 1-kappakstursbíl hefur farið fram úr mínum björtustu draumum og því sem ég hélt að væri mögulegt,“ sagði hún. 

Hún sagði það mikinn heiður að keyra fremst í fylkingu Renault-liðsins í heimalandi þess, Frakklandi. „Ég vona að með því gera það á þessum degi sem konur mega loks aka um vegi Sádi-Arabíu sýni ég hvað hægt er að gera ef þú hefur metnað og ástríðu til að láta þig dreyma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert