Kallar Guð „heimskan“

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja.
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. AFP

Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, sagði í sjónvarpsræðu sinni í gær að sér þætti Guð vera „heimskur“. Ummæli forsetans hafa ollið gríðarlegri reiði í Filippseyjum, en yfir 90% íbúa eru kristnir og mikill meirihluti þeirra er kaþólskur.

Kaþólska kirkjan í Filippseyjum og gríðarlegur fjöldi íbúa hafa fordæmt ummæli hans. Kaþólski biskupinn í Filippseyjum, Arturo Bastes, hefur í kjölfar ummæla Duterte kallað forsetann „brjálaðan“ og biðlað til Filippseysku þjóðarinnar að biðja fyrir honum.

Í ræðunni gerði forsetinn lítið úr sögunni um Adam og Evu og um hugtakið að syndga. „Hvers lags trú er þetta. Ég get ekki samþykkt þetta.“ Duterte hefur alla tíð verið þekktur fyrir óbeisluð og hneykslanleg ummæli og árásir á andstæðinga sína. Forsetinn hefur áður farið ófögrum orðum um páfann ásamt fjölda annarra umdeildra ummæla sem ýmist þykja móðgandi, grimmileg eða kvenkúgandi.

Talsmaður Duterte, Harry Roque, sagði forsetann einungis vera að láta í ljós sínar persónulegu skoðanir. Hann segir reiði Duterte í garð kaþólsku kirkjunnar einkum felast í fullyrðingu forsetans um að hann hafi í æsku verið misnotaður af kaþólskum presti.

Duterte tók við forsetaembættinu í júlí 2016 og hefur síðan þá helst vakið athygli fyrir grimmilega einræðistilburði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert