ESB höfðar mál gegn Póllandi

Mótmælt var í Varsjá 26. júní síðastliðinn vegna fyrirhugaðra breytinga …
Mótmælt var í Varsjá 26. júní síðastliðinn vegna fyrirhugaðra breytinga á lögum um dómstóla í Póllandi. AFP

Evrópusambandið hefur í dag sett af stað málshöfðun gegn Póllandi vegna umdeildra breytinga á dómskerfi landsins. Er þetta talið framhald af deilum Evrópusambandsins og pólskra yfirvalda sem hafa staðið um tíma.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sagt að ný löggjöf sem lækkar starfslokaaldur dómara við Hæstarétt Póllands úr 70 í 65 ár dragi úr sjálfstæði dómstóla í landinu, sem stríði gegn ákvæðum laga sambandsins.

Álitið er að með lækkun starfslokaaldurs, sem tekur gildi á morgun, þurfa 27 af 72 dómurum við hæstarétt Póllands að láta af störfum og eru uppi áhyggjur um að ríkisstjórn Póllands, undir forystu Laga- og regluflokksins (PiS), hafi nú tækifæri til þess að skipa nýja dómara sem eru líklegri til þess að vera hliðhollir stefnu stjórnvalda.

Hingað til hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins verið í viðræðum við pólsk yfirvöld um fleiri mál er tengjast breytingum á dómskerfi landsins sem framkvæmdastjórnin segir ógna réttarríkinu.

Fyrsta skref málshöfðunar

„Ríkisstjórn Póllands og framkvæmdastjórnin hafa verið í viðræðum vegna fyrirhugaðra breytinga á lögum um Hæstarétt Póllands. Það hefur ekki verið leyst úr vanköntum atriða sem varða réttarríkið með fullnægjandi hætti,“ hefur AFP eftir Margaritis Schinas, talsmanni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Stjórnvöld í Póllandi hafa nú mánuð til þess að svara yfirlýsingu framkvæmdastjórnarinnar, en slík yfirlýsing er fyrsta skref í málshöfðun gegn aðildarríki Evrópusambandsins. Haldi ferlið áfram fer málið fyrir Evrópudómstólinn.

Dæmi Evrópudómstóllinn Póllandi í óhag, fylgja dómnum tilmæli um úrbætur. Verði ekki orðið við þeim tilmælum hefur framkvæmdastjórnin heimild til þess að afturkalla atkvæðisrétt Póllands innan Evrópusambandsins og beita öðrum þvingunaraðgerðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka