Köfuðu í þrjár klukkustundir að drengjunum

John Volanthen (t.v.) og Richard William Stanton ásamt taílenskum kollegum …
John Volanthen (t.v.) og Richard William Stanton ásamt taílenskum kollegum sínum við hellinn á Taílandi rétt áður en þeir hófust handa við að kafa að drengjunum. AFP

Bresku kafararnir tveir sem fundu drengina í hellinum á Taílandi í gær hafa áður komið að erfiðum leitaraðgerðum síðustu ár. 

Richard Stanton og John Volanthen vinna sem slökkviliðsmaður og verkfræðingur á daginn. Það voru þeir sem leiddu langa og stranga ferð í gegnum net ganga í hellinum á Taílandi sem leiddi þá loks að drengjunum þar sem þeir voru samankomnir á klettasyllu. Þá höfðu þeir verið týndir í rúmlega níu sólarhringa. 

„Bresku kafararnir Rick og John voru í broddi fylkingar leitarflokksins að sögn Bill Whitehouse sem fer fyrir sjálfstæðum samtökum björgunarmanna í Bretlandi. 

„Þeim tókst að kafa þennan síðasta hluta leiðarinnar inn í hellishvelfinguna þar sem týndi hópurinn var á syllu yfir ofan vatnið,“ segir hann. 

Gríðarlega erfið leit

Whitehouse hefur rætt við breska björgunarliðið sem er á vettvangi segir leitina hafa reynst gríðarlega erfiða. 

„Þeir þurftu að kafa á móti straumnum í gangakerfinu svo þeir þurftu að synda á móti vatnsflaumnum og draga sig áfram eftir klettaveggjunum,“ segir hann í samtali við BBC. „Ég held að leiðin sem þeir köfuðu [síðasta spölin] hafi verið um 1,5 kílómetrar og helmingur hennar var á bólakafi.“ Köfunin hafi tekið um þrjár klukkustundir.

Volanthen, sem er verkfræðingur og starfar í Bristol, og Stanton, sem er slökkviliðsmaður frá Coventry, hafa oftsinnis kafað við erfiðar aðstæður.

Stanton, sem er á sextugsaldri, greindi frá því árið 2012 að hann hefði komið að björgun sex breskra hermanna sem voru innlyksa í helli í Mexíkó. 

Hann og Volanthen komu einnig að leitinni að Eric Establie árið 2010 en hann festist neðanjarðar á Ardeche-svæðinu í suðurhluta Frakklands. Establie fannst látinn átta dögum eftir að hann hvarf. 

Efiðasta leitin í Frakklandi

„Allar björgunaraðgerðir í hellum eru mjög erfiðar en sú erfiðasta var í Frakklandi,“ sagði Stanton í viðtali fyrir nokkrum árum en þá hafði hann fengið heiðursviðurkenningu frá Elísabetu Englandsdrottningu.

„Ég og annar kafari vorum þar í tíu daga og það var mjög erfitt allan tímann. Það var mjög hættulegt að kafa og þetta var mjög hættulegur hellir,“ sagði hann. 

Hann sagði að hellaköfun væri þó enn aðeins áhugamál hjá sér en hann hóf að kafa átján ára gamall eftir að hafa horft á heimildarmynd í sjónvarpinu.

Á Taílandi hafa björgunarmennirnir haldið sig fyrir utan sviðsljós fjölmiðla. Það eina sem Volanthen sagði fréttamönnum við komuna á vettvang var: „Við höfum verk að vinna.“

Volanthen er á fimmtugsaldri. Hann sagði í viðtali við Sunday Times árið 2013 að í hellaköfun væri mikilvægt að halda ró sinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert