Einn dyggasti þjónn Trumps hættur

Donald Trump og Scott Pruitt.
Donald Trump og Scott Pruitt. AFP

Forstjóri Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna, Scott Pruitt, sagði af sér eftir í dag eftir að hafa verið sakaður um laga- og siðferðisleg brot um margra mánaða skeið.

Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá þessu á Twitter en þar þakkaði hann Pruitt fyrir „frábær störf“ og sagði að Andrew Wheeler aðstoðarforstjóri myndi taka við sem starfandi forstjóri á mánudag.

Þrátt fyrir röð hneykslismála hélt Trump ávallt tryggð við Pruitt. Talið er að ástæðan fyrir því sé sú að Pruitt er afneitari loftslagsvísinda en í embætti gekk hann hart fram í að afnema umhverfisverndarreglur.

Wheeler er fyrrverandi málsvari hagsmunasamtaka kolaframleiðenda og er sagður hafa svipaðar skoðanir og forveri hans í starfi. Wheeler er sagður, líkt og Pruitt, hafa andúð á reglugerðum sem hafa það að markmiði að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Scott Pruitt.
Scott Pruitt. AFP

„Hann hefur staðið sig gríðarlega vel í starfi og ég mun ávallt verða honum þakklátur fyrir það,“ skrifaði Trump enn fremur, án þess að skýra brotthvarf Pruitt úr starfi nánar.

Pruitt hefur lengi verið undir smásjánni vegna gruns um spillingu. Hann hefur meðal annars verið gagnrýndur fyrir að eyða opinberu fé í ferðalög á fyrsta farrými og með einkaþotum. Að minnsta kosti þrettán alríkisrannsóknir standa yfir vegna gjörða hans í embætti.

Pruitt var helsti hvatamaðurinn fyrir því að Bandaríkin drógu sig úr Parísarsamkomulaginu gegn loftslagsbreytingum. Hann hvatti Trump ákaft til að draga sig úr því, þrátt fyrir viðvaranir annarra ráðgjafa um að slíkt myndi skaða trúverðugleika Bandaríkjanna í utanríkismálum.

Umfjöllun New York Times um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert