Ljón átu veiðiþjófa

Hópur ljóna réðst á mennina.
Hópur ljóna réðst á mennina. AFP

Að minnsta kosti þrír menn, sem grunaðir eru um veiðiþjófnað, urðu ljónum að bráð í friðlandi í Suður-Afríku. Mennirnir voru að veiða nashyrninga er ljón réðust á þá, drápu og átu. Þetta segir eigandi friðlandsins. 

Mennirnir fóru inn í Sibuya-friðlandið á suðausturströnd landsins vopnaðir rifflum og öxum snemma á mánudag. Lík þeirra fundust sundurtætt daginn eftir.

„Þeir villtust inn á búsvæði ljónahjarðar, þetta er stór hjörð svo að þeir höfðu ekki mikinn tíma,“ segir Nick Fox, eigandi garðsins, í samtali við AFP-fréttastofuna. „Við erum ekki vissir um hversu margir þeir voru - það er ekki mikið eftir af þeim. En þetta virðast vera föt þriggja manna. Ég hef aldrei heyrt af öðru eins á þessu svæði.“

Meinafræðingar lögreglunnar eru nú á vettvangi við að safna þeim líkamsleifum sem eftir eru. „Við fórum þangað í gær, ég fékk dýralækni til að skjóta deyfilyfi í ljónin,“ segir Fox. „Ég held að við höfum verið heppnir hérna, að ljónin náðu þeim áður en þeir náðu nashyrningunum. Við misstum þrjá nashyrninga í mars árið 2016.“

Innan við 25 þúsund nashyrningar eru nú eftir í Afríku. Veiðiþjófnaður hefur færst í vöxt síðustu ár. 

Dýrin eru veidd vegna hornanna en mikil spurn er eftir þeim í Asíu, m.a. Kína og Víetnam. Einhverjir telja enn, þótt það hafi verið afsannað ítrekað, að efni í þeim auki kyngetu. Hið rétta er að efnið er  það sama og finna má í nöglum fólks. 

Fox segir að friðlandið sé opið gestum, þrátt fyrir atvikið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert