„Ég elska ykkur, pabbi, mamma og systir mín. Þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af mér, ég elska ykkur öll!“ skrifar einn drengjanna tólf sem hafa setið fastir í Tham Luang-hellunum í tvær vikur.
Breskir kafarar hafa fært ættingjum drengjanna og þjálfara þeirra handskrifuð bréf. Kafararnir hafa einnig komið skilaboðum til þjálfarans og drengjanna. Þjálfarinn bað foreldra drengjanna afsökunar en foreldrarnir hafa svarað honum og segja að hann eigi ekki að áfellast sjálfan sig. Drengirnir fóru ásamt þjálfaranum inn í hellinn á leið heim af fótboltaæfingu 23. júní.
Bréfin voru færð ættingjunum í gær og hefur hluti þeirra verið birtur á Facebook-síðu taílenska sjóhersins.
„Ekki hafa áhyggjur af mér, ég er öruggur,“ skrifar drengur sem ber gælunafnið Pong. „Ástarkveðja til mömmu, pabba og litla bróður,“ skrifar annar.
Drengjunum hefur einnig tekist að halda í húmorinn í þessum gríðarlega erfiðu aðstæðum. „Ef ég kemst út, má ég þá vinsamlegast fá grillað svínakjöt og grænmeti?“ skrifar einn drengjanna. Á meðan hefur annar hugann við skólann: „Kennari, ekki setja okkur fyrir mikið heimanám!“
Bréfin hafa snert við ættingjum drengjanna og fært þeim von. „Það gleður mig mjög að sjá bréfið og rithöndina hans. Ég er gráti næst,“ segir móðir eins drengjanna. „Það skiptir ekki máli hversu lengi ég þarf að bíða, svo lengi sem hann er öruggur.“
Biðin gæti orðið ansi löng því enn er óljóst hvenær drengjunum verður bjargað úr hellinum þar sem enn er verið að leita hagkvæmustu leiðarinnar. Yfir hundrað holur hafa verið boraðar í hellinn í þeim tilgangi að reyna að finna nýjar leiðir til að koma drengjunum úr hellinum ef kemur til þess að hellirinn fyllist enn frekar af vatni í miklu vatnsveðri.
Tíminn er naumur vegna yfirvofandi rigningartímabils. Áður var talið að drengirnir gætu beðið vikum og jafnvel mánuðum saman inni í hellinum en lækkandi súrefnishlutfall í hellinum og miklar rigningar gera það að verkum að björgunaraðilar vinna nú í kapp við tímann.