Rannsókn á morði á hinum fjórtán ára gamla Emmett Till hefur nú verið enduropnuð að nýju samkvæmt skýrslu dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Morðið á Till er eitt alræmdasta dæmi um kynþáttaofbeldi í Bandaríkjunum á síðustu öld.
Samkvæmt skýrslunni var málið enduropnað eftir að ráðuneytinu barst nýjar upplýsingar um málið en samkvæmt vef CNN er ekki vitað hverjar upplýsingarnar eru.
Morðið á Till var bandarísku þjóðinni gríðarlegt reiðarslag og leiddi til mikillar umræðu um borgararéttindi svarts fólks í Bandaríkjunum. Hryllilegar ljósmyndir af lemstruðu líki Till birtust í fjölmiðlum um heim allan og urðu að vissu leyti táknmynd kynþáttafordóma og ofbeldis í suðurríkjunum. Þremur mánuðum eftir morðið neitaði svo baráttukonan Rosa Parks að gefa eftir sæti sitt í strætisvagni í Montgomery, Alabama eins og frægt er orðið.
Tildrög morðsins á Till voru sú að 21 árs gömul kona, Carolyn Bryant, sakaði Till um að hafa blístrað að sér og látið daðurslega. Till var svo rifinn fram úr rúmi sínu þar sem hann svaf um miðja nótt í ágúst 1955, barinn heiftarlega og að lokum skotinn til bana. Líki hans var síðan fleygt í Tallahatchie-ána í bænum Money, Mississippi. Till, sem var frá Chicago, hafði verið í heimsókn hjá frænda sínum í Money. Bryant viðurkenndi í viðtali löngu síðar að hún hafi logið upp á Till og að hann hafði ekki gert henni neitt.
Minna en mánuði eftir að lík Till fannst í ánni voru eiginmaður Bryant, Roy, og annar maður að nafni J.W. Milam, sýknaðir af morðinu á Till af kviðdómi, þrátt fyrir að sjónarvottar sem sáu til þeirra hafi borið vitni.
Síðar lýstu Roy Bryant og Milam því í viðtali hvernig þeir höfðu drepið Till og fleygt líki hans í ána en samkvæmt fimmta ákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar mátti ekki ákæra þá að nýju fyrir sama glæp. Báðir eru látnir í dag en eiginkona Bryant, Carolyn, lifir enn.