Pútín: „Ég vildi að Trump ynni“

„Af hverju dettur þér í hug að Trump treysti mér eða ég treysti honum?“ sagði Vladimír Pútín Rússlandsforseti á sameiginlegum blaðamannafundi hans og Donalds Trump í Helsinki fyrr í dag. Á meðal þess sem fram kom á fundinum var að leiðtogarnir tveir eru sammála um það að ekkert samráð hafi verið viðhaft í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2016.

Í upphafi fundarins gáfu forsetarnir báðar stuttar yfirlýsingar þar sem þeir þökkuðu hvor öðrum fyrir fundinn og sögðust auk þess fagna því að samband ríkja þeirra væri vonandi að komast í betri farveg.  

„Samband okkar hefur aldrei verið verra en það er nú. Það breyttist þó fyrir um fjórum klukkustundum. Ég trúi því,“ sagði Trump. Þá sagði Pútín að þó að sambandið hefði verið stirt á síðustu misserum væru „engar raunverulegar ástæður á bakvið það“.

Leiðtogarnir tveir sögðust vera sammála um það að ekkert samráð …
Leiðtogarnir tveir sögðust vera sammála um það að ekkert samráð hafi verið fyrir kosningarnar 2016. AFP

Ekkert samráð fyrir kosningarnar 2016

Í yfirlýsingu sinni sagðist Pútín hafa borið áhyggjur sínar af kjarnorkuvopnum í Íran undir Bandaríkjaforseta auk þess sem hann sagðist „aldrei hafa haft afskipti“ af bandarískum málefnum, þar á meðal forsetakosningunum 2016, en tólf rússneskir njósnarar voru ákærðir síðasta föstudag fyrir að brjótast inn í tölvukerfi Demókrataflokksins.

Þá sagði Trump að þeir hefðu einnig rætt kjarnorkuvopn, afvopnun Norður-Kóreu og hryðjuverkastarfsemi róttækra öfgatrúarmanna.

Þrátt fyrir að hafa sagt í Twitter-færslu sinni í morgun að stirt samband ríkjanna tveggja væri Bandaríkjunum að kenna tók Trump í annan streng á blaðamannafundinum.

„Ég tel bæði ríkin bera ábyrgð. Ég held að Bandaríkin hafi sýnt heimsku. Við höfum öll sýnt heimsku,“ sagði Trump.

„Við hefðum raunar átt að eiga þessar samræður fyrir löngu. Þetta er okkur öllum að kenna. Ég held að Bandaríkin hafi tekið skref fram á við með Rússlandi.“

Pútín gaf Trump HM-fótbolta að gjöf sem Trump segist ætla …
Pútín gaf Trump HM-fótbolta að gjöf sem Trump segist ætla gefa yngsta syni sínum. AFP

Rannsókn Mueller „hörmung fyrir landið“

Þrátt fyrir þetta hélt forsetinn áfram að fara ófögrum orðum um rannsókn sérstaks saksóknara, Roberts Mueller, á afskiptum Rússa af kosningunum 2016.

„Ég held að þessi rannsókn sé hörmung fyrir landið okkar. Ég held að hún hafi skilið okkur [Bandaríkin og Rússland] að. Ég held að hún hafi haldið okkur aðskildum.“

Leiðtogunum var báðum mikið í mun að koma því á framfæri að ekkert samráð hefði verið þeirra á milli fyrir kosningarnar 2016.

„Það var ekkert samráð. Það vita það allir,“ sagði Trump. „Við rákum frábæra kosningabaráttu og þess vegna er ég forseti,“ bætti hann við. „Ég sigraði Hillary Clinton auðveldlega.“

Þá minntist forsetinn margsinnis á tölvupósta sem Hillary Clinton sendi frá sínu persónulega netfangi þegar hún gegndi embætti utanríkisráðherra.

Segir Pútín hafa verið sannfærandi í neitun sinni

Trump var einnig spurður af blaðamanni AP-fréttaveitunnar hvort hann tryði fullyrðingum sinnar eigin leyniþjónustu eða neitun Pútíns varðandi afskipti Rússa af kosningunum. Þá sagðist Trump „ekki sjá neina ástæðu af hverju“ Rússar ættu að vera ábyrgir fyrir tölvuárásum.

„Ég hef mikla trú á leyniþjónustufólkinu mínu, en ég segi ykkur það að Pútín forseti var einstaklega sannfærandi og sterkur í neitun sinni í dag,“ sagði Trump.

Aðspurður sagðist Pútín ætla að kynna sér mál rússnesku njósnaranna tólf sem ákærðir voru síðasta föstudag betur og bætti við að hann væri ekki nægilega vel að sér í málinu.

„Ég þekki ekki allar hliðar málsins. Trump forseti minntist á þetta. Ég mun skoða þetta.“

Þá minntist Pútín einnig á það að hann hefði vissulega haldið með Trump í kosningunum 2016. „Ég vildi að Trump ynni því hann talaði um venjuleg samskipti við Rússland.“

Segir Trump hafa sýnt vanvirðingu

Fjölmiðlar og stjórnmálamenn í Bandaríkjunum hafa brugðist harkalega við ummælum Trumps á blaðamannafundinum. 

John Brennan, fyrrverandi forstjóri CIA, sagði að atferli Trump á fundinum jaðraði við landráð. 

Þá sagði Anderson Cooper, blaðamaður CNN, að ummæli Trump hefðu verið „skammarleg“.

Ari Fleischer, fjölmiðlafulltrúi George W. Bush, gagnrýndi einnig ummæli Trumps, sem og aðrir stjórnmálamenn innan bæði Repúblikana- og Demókrataflokksins. 

Chris Murphy frá Connecticut-ríki

Mark Warner frá Virginíuríki.

Elizabeth Warren frá Massachusetts-ríki

Trump hefur nú yfirgefið finnsku forsetahöllina og flýgur til Washington innan skamms. 

Ummæli Trump á blaðamannafundinum hafa ollið gífurlegri reiði vestan hafs.
Ummæli Trump á blaðamannafundinum hafa ollið gífurlegri reiði vestan hafs. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka