Sammála um að sökin sé Bandaríkjanna

Donald Trump segir að stirt samband Bandaríkjanna og Rússlands sé …
Donald Trump segir að stirt samband Bandaríkjanna og Rússlands sé Bandaríkjunum að kenna fremur en Rússlandi. AFP

Rússneska utanríkisráðuneytið hefur tekið undir Twitter-færslu Donald Trump Bandaríkjaforseta um að samband Rússlands og Bandaríkjanna hafi aldrei verið verra vegna „margra ára fífla­skapar og heimsku“ Bandaríkjanna.

Trump setti færsluna inn í morgun, fáeinum klukkustundum áður en hann gekk til fundar við Vladimir Pútín Rússlandsforseta. Rússneska ráðuneytið tók svo undir færsluna, einnig á Twitter. 

Þá segir Trump að rannsókn Roberts Mueller á afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016 eigi stóran þátt í því að sambandið hafi ekki verið upp á marga fiska á síðustu misserum.

Fyrir fáeinum dögum sagði Trump að „hrein heimska“ og „pólitísk vandamál“ í Bandaríkjunum hafi gert það „mjög erfitt að gera eitthvað með Rússland“.

„Hvað sem þú gerir, það mun alltaf einhver segja Ó Rússland, hann elskar Rússland,“ sagði Trump á blaðamannafundi á föstudaginn eftir fund sinn með Theresu May, forsætisráðherra Bretlands.

Þá hefur Trump einnig kennt forvera sínum Barack Obama um köld samskipti Bandaríkjanna og Rússa og sagt að rannsóknin á tölvuárásum Rússa í aðdraganda kosninganna 2016 vera „nornaveiðar“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert