Snemma dags fyrir hundrað árum var Nikulás II., síðasti keisari Rússlands, drepinn af Bolsévikum ásamt eiginkonu sinni og börnum í kjallara húss í Tobolsk. Þessara tímamóta minntust um 100 þúsund manns á vettvangi atburðanna, skammt austan Úral-fjalla, í nótt. Gekk hópurinn, undir leiðsögn prests rétttrúnaðarkirkunnar, frá morðstaðnum og að klaustri, um 21 kílómetra leið.
Klaustrið var byggt á þeim stað þar sem brenndum líkum fjölskyldunnar var fleygt eftir aftökuna sem fram fór í kjölfar rússnesku byltingarinnar.
Bolsévikar skutu keisarann, sem þá hafði nýverið sagt af sér, eiginkonu hans og fimm börn til bana. Einnig voru þjónar þeirra og læknir, sem stödd voru í húsinu, drepin. Fjölskyldan var í stofufangelsi.
Yfirvöld á svæðinu segja að áhugi á sögu keisarafjölskyldunnar fari vaxandi. Um 2.000 manns tóku þátt í athöfn á vettvangi morðanna árið 2002 og hefur fjöldinn aukist mikið síðan.
Ný DNA-rannsókn hefur staðfest að bein sem talin voru af fjölskyldunni eru raunverulega úr henni. Frá þessu greindu rannsakendur í gær, en staðfesting er talin kunna að auka líkur á að rússneska rétttrúnaðarkirkjan viðurkenni nú réttmæti beinanna og veiti þeim greftrun.
Það var kirkjan sjálf sem fór fram á DNA-rannsóknina, en kirkjan hafði dregið fyrri rannsókn á beinunum í efa.