Þrír almennir borgarar féllu og níu særðust í sprengjuárás á fjölmennan markað í suðvesturhluta Jemen. Samkvæmt upplýsingum frá samtökunum Læknar án landamæra var árásin gerð í borginni Taiz sem er á yfirráðasvæði húta sem berjast gegn stjórnarhernum og herjum bandamanna í landinu. Ekki er enn ljóst hver ber ábyrgð á árásinni.
Hútar, sem upphaflega voru fyrirferðarmestir í norðurhluta Jemens, hafa háð blóðugt stríð við heri Abedrabbo Mansour Hadi forseta frá árinu 2015. Talið er að um 10 þúsund manns hafi fallið á þeim tíma, flestir eftir að Sádi-Arabar hófu árásir í landinu við hlið stjórnarhersins. 2.200 börn hafa fallið í stríðinu.