Læknir á flótta eftir rassastækkun

Læknirinn Denis Furtado hefur lengi verið umdeildur en engu að …
Læknirinn Denis Furtado hefur lengi verið umdeildur en engu að síður verið mjög vinsæll lýtalæknir. Skjáskot/YouTube

Vinsæll, brasilískur lýtalæknir, sem þekktur er fyrir rassastækkanir, er farinn í felur eftir að sjúklingur hans lést aðeins nokkrum tímum eftir að hafa gengist undir aðgerð á heimili læknisins í  Rio de Janeiro.

Læknirinn Denis Furtado var sagður geta gert „töfrandi“ breytingar á líkömum kvenna, sérstaklega á rassi þeirra. Hann var orðinn mjög þekktur í heimalandi sínu fyrir þessa sérstöðu sína. Hann er 45 ára gamall og er með um 650 þúsund fylgjendur á Instagram.

En nú leitar lögreglan hans eftir að Lilian Quezia Calixto lést aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hafa gengist undir rassastækkun á heimili hans í Barra de Tijuca-hverfinu.  

Umdeilt fylliefni

Calixto hafði ferðast um 2.000 kílómetra leið til að hitta lækninn sem vinsæll er meðal fræga fólksins í Brasilíu. En eftir að hafa verið sprautuð með umdeildu efni, sem m.a. inniheldur akrýlhúðað fylliefni, fór henni að líða illa. 

Hún fór á sjúkrahús og þegar þangað var komið var hún með mjög öran hjartslátt og ofandaði. Hún fékk í kjölfarið fjórum sinnum hjartaáfall og lést. 

Skömmu síðar hvarf Furtado og er nú eftirlýstur fyrir morð. Kærasta hans, sem sögð er aðstoða hann í aðgerðunum, hefur verið handtekin.

Brasilía er það land þar sem flestar lýtaaðgerðir eru framkvæmdar á eftir Bandaríkjunum. Þessi iðnaður veltir gríðarlegum fjármunum. 

Samtök lýtalækna í landinu voru fljót að afneita Furtado eftir dauðsfallið og segja að í þessum bransa starfi sífellt fleiri sem ekki hafi sérþekkingu. 

„Þú getur ekki framkvæmd lýtaaðgerð í íbúð. Margir eru að selja draum, fantasíu, til sjúklinga með ósiðlegum hætti,“ segir formaður samtakanna, Niveo Steffen.

Steffen segir að það fylliefni sem Furtado hafi notað sé mjög hættulegt og hafi valdið dauða fjölda kvenna í Suður-Ameríku, m.a. í Venesúela. 

Fortado hefur fjórum sinnum verið kærður fyrir ólöglegar lækningar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert