Sænsk yfirvöld hafa beðið Evrópusambandið um meiri hjálp í baráttunni við skógarelda sem geisa víðs vegar um landið. Þegar er ítalskt lið komið á vettvang með tvær sérútbúnar flugvélar en yfirvöld telja það ekki duga til.
Í frétt sænska ríkisútvarpsins segir að ástandið sé alvarlegt víða og mikil þreyta komin í mannskapinn sem sinnir slökkvistörfum. Í gær var óskað eftir sjálfboðaliðum til aðstoðar. Í augnablikinu, segir í frétt útvarpsins, er verið að sinna 37 útköllum vegna gróðurelda. Í sumum tilvikum er um sinubruna að ræða en í öðrum mikla elda í skógum.
Verst er ástandið í Jämtlandi, Gävleborg og í Dölunum og þar hefur nú verið reynt að ná tökum á gróðureldum dögum saman. Í gær var einfaldlega ekki hægt að kalla út fleiri slökkviliðsmenn sem hafði áhrif á aðgerðir. Reynt hefur verið að slökkva eldana með þyrlum, m.a. frá Noregi, en það hefur ekki skilað tilætlum árangir, segir í frétt sænska ríkisútvarpsins.
Í dag munu ítölsku flugvélarnar verða nýttar í slökkvistarfinu sem og næstu átta daga.
Í gær þurftu 55 íbúar í Ljusdal að yfirgefa heimili sín, sextíu hús í Härjedalen voru rýmd sem og fleiri svæði í nágrenni eldanna.
Skógareldar hafa geisað í Svíþjóð í að verða tvo mánuði. Mjög þurrt er á stórum svæðum og ekki er útlit fyrir rigningu á næstu dögum.