Tyrkneskir stjórnmálamenn hafa í dag lýst yfir stuðningi við ákvörðun Mesut Özil en hann tilkynnti í gær að hann væri hættur að leika fyrir þýska landsliðið í knattspyrnu. Özil, sem er ættaður frá Tyrklandi, gagnrýndi þýska knattspyrnusambandið harðlega.
„Við styðjum heiðarlegt viðhorf Mesut Özil,“ skrifaði Mehmet Kasapoglu, íþróttamálaráðherra Tyrklands, á Twitter.
Özil var harðlega gagnrýndur í Þýskalandi í maí eftir að hann var myndaður með Recep Erdogan, forseta Tyrklands, á samkomu í London. Ýmsir þýskur stjórnmálamenn gerðu athugasemdir við myndina og drógu í efa að Özil aðhylltist þýsk gildi en Þjóðverjar hafa gagnrýnt Erdogan undanfarin misseri.
„Það er áhyggjuefni þegar frábærum þýskum knattspyrnumanni eins og Mesut Özil finnst hann ekki lengur velkomin í sínu heimalandi vegna kynþáttafordóma,“ skrifaði Katarina Barley, jafnréttismálaráðherra Þýskalands, á Twitter.
Özil sagði að kynþáttafordómar og vanvirðingr hefði leitt til ákvörðunarinnar. „Ég er þýskur þegar við vinnum en innflytjandi þegar við töpum,“ sagði Özil meðal annars.