Rúmlega 1.400 skógareldar, uppskerubrestur í landbúnaði, slátrun búpenings, grillbann víða um land og 26 dagar með yfir 30 stiga hita. Þetta er aðeins brot þess veruleika sem Norðmenn, og reyndar velflestir íbúar meginlands Evrópu, hafa búið við að miklu leyti síðan snemma í maí og virðist ekkert lát á. Gert er ráð fyrir 32 stiga hita í Ósló á föstudaginn.
„Persónulega óska ég eftir regni,“ segir Anette Karlsen, sem rekur bensínstöð í Gulsvik í Buskerud-fylki í Suður-Noregi, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, en í Gulsvik hefur eitt fjölmargra veðurmeta sumarsins verið slegið; 30 stiga hiti í samtals 26 daga, þar af 14 í júlí. Eldra Noregsmet er 63 ára gamalt, frá 1955, en þá mældist slíkur hiti í 18 daga í Ósló. Þetta fyrirbæri kalla Norðmenn hitabeltisdag (n. tropedag) en það er sá dagur þegar hiti nær 30 stigum.
Veðurtölfræðingurinn Bernt Lie segir þó eldra met frá 1901, þar með 117 ára gamalt, vera 20 hitabeltisdaga en norska veðurstofan vill þó ekki taka það met fullkomlega gott og gilt þar sem tölurnar frá 1901 finnist ekki á stafrænu formi. „Veðurstofan lítur á þá mælingu sem ranga og telur að mælarnir hafi verið í sólinni [ekki skugga],“ útskýrir Lie.
Anette Karlsen á bensínstöðinni í Buskerud segir stöðina sem betur fer vera búna loftkælingu og starfsfólkið sé mikið til inni í svalanum við störf sín. Ruth Skeider, íbúi í Gulsvik, segir við NRK að hún og heimilisfólkið bregði á það ráð að loka dyrum og gluggum, þá verði ekki eins heitt innanhúss, en einnig fari þau töluvert og kæli sig í stöðuvatninu Krøderen þar á svæðinu sem er vinsæll staður til útivistar.
Á föstudag gerir norska veðurstofan ráð fyrir allt að 32 gráða hita í Ósló en veðurmet hafa borist frá norskum fylkjum með mun norðlægari hnattstöðu en Ísland og má þar nefna Finnmörku, Troms og Nordland en hitastig í Bardufoss í Troms mældist 33,5 gráður á miðvikudag í síðustu viku og hefur aldrei mælst hærra. Íbúar þar kalla bæinn nú „Bardufornia“ af þessu tilefni eins og dagblaðið VG greindi frá.