Yfir 200 umhverfisverndarsinnar voru myrtir á síðasta ári. Fjöldi drápa, sem stjórnvöld eru talin tengjast vegna gróðavænlegra verkefna alþjóðlegra stórfyrirtækja, hefur aukist hröðum skrefum.
Eftirlitssamtökin Global Witness hafa skráð 207 mál þar sem umhverfissinnar hafa verið drepnir í tilraunum sínum til að vernda land, oft þegar til hefur staðið að brjóta það undir akra fyrir neysluvörur á borð við kaffi og pálmaolíu. Árið 2017 er því það mannskæðasta hingað til hvað umhverfisvernd varðar.
„Er spurn á heimsvísu eftir þessum framleiðsluvörum hefur aukist hafa fyrirtæki keppst við að ná gríðarmiklu landi sem þau þurfa til að rækta þessar vörur,“ segir Ben Leather, einn af forsvarsmönnum Global Witness. „Þegar fólk hefur kjark til að standa vörð um réttindi sín og krefjast þess að náttúran njóti verndar þá er þaggað niður í því með eins grimmilegum hætti og frekast er unnt.“
Samtökin segjast hafa í höndum sönnunargögn um að útsendarar stjórnvalda, lögreglu- og hermenn, beri ábyrgð á 53 dauðsfallanna. Líklega tengist þó stjórnvöld fleiri morðum því gera megi ráð fyrir því að stjórnvöld hafi staðið á bak við einhver þeirra morða sem glæpagengi framkvæmdu eða leyft þeim að viðgangast. „Fulltrúar stjórnvalda hleyptu af í sláandi mörgum tilvikum en í öðrum heimiluðu þau aðgang fyrirtækja án þess að verja réttindi íbúanna svo þannig eru þau samsek í fleiri morðum,“ segir Leather.
Í skýrslu Global Witness er greint frá hrottalegum glæpum víðs vegar um heiminn gegn samfélögum sem reyndu að verjast framkvæmdum stórfyrirtækja og stjórnvalda. Auk morðanna er þar fjallað um líflátshótanir, handtökur, netárásir, kynferðisárásir og lögsóknir sem umhverfisverndarfólk hefur þurft að þola.
Ofbeldið tengist oftast umfangsmiklum landbúnaði, námugreftri, skógarhöggi og veiðiþjófnaði sem farið er í til að framleiða neysluvörur sem flestir jarðarbúar nota án umhugsunar: Pálmaolíu fyrir snyrtivörur, sojabaunir til að rækta nautgripi og timbur til húsgagnagerðar.
Brasilía var í fyrra hættulegasta land heims fyrir umhverfisverndarsinna. Þar voru 57 þeirra drepnir. Á Filippseyjum voru 48 drepnir.
„Stjórnvöld bera lagalegar og siðferðislegar skyldur til að vernda mannréttindi þessa fólks en í stað þess eru þau oft að ráðast á það með orð að vopni og, eins og okkar tölur sýna, með því að beita vopnuðum fulltrúum sínum sem sjá um sum drápanna,“ segir Leather.
Global Witness fjallar sérstaklega um ríkisstjórn Michels Temer, forseta Brasilíu. Saka samtökin stjórn hans um að leita leiða til að breyta lögum og reglum stórtækum landbúnaðarfyrirtækjum í hag nú þegar kosningar eru í vændum.
„Michel Temer og brasilíska þingið eru vísvitandi að veikja löggjöfina og stofnanirnar sem eiga að vernda samfélög innfæddra og land,“ segir í skýrslunni. „Á sama tíma hafa þeir reynt að gera það auðveldara fyrir stórfyrirtæki - án þess að mannréttindabrot þeirra og umhverfisáhrif hafi nokkur áhrif þar á - að ofnýta viðkvæm vistkerfi.“
Global Witness segir að árið 2017 hafi einnig skorið sig úr fyrir þær sakir að aldrei hafa jafnmörg fjöldamorð verið framin á umhverfisverndarsinnum. Samtökin skráðu sjö mál þar sem fjórir eða fleiri voru drepnir í einni og sömu árásinni. Eitt slíkt blóðbað, þar sem átta þorpsbúar sem voru að verja land sitt féllu, var gert á fyrirhuguðum kaffiakri á Filippseyjum.
Frumbyggjar eru líklegustu fórnarlömb morða vegna umhverfisverndar. Það skýrist að sögn Global Witness af því að staða þeirra gagnvart stjórnvöldum er veik fyrir.
„Auðvitað er líf mitt í hættu,“ segir Mario do Socorro Costa da Silva, sem berst gegn byggingu álvera í Brasilíu. „Ég fæ líflátshótanir allan sólarhringinn því ég ætla ekki að þegja um þessa grimmd.“
Leather segir þá kröfu gerða til stjórnvalda að þau verndi samfélög sem hætta steðjar að. Hann segir að fjárfestar í stórfyrirtækjum ættu líka að leggja sín lóð á vogarskálarnar með því að krefjast aukins gagnsæis. Slíkt gæti dregið úr hættu á ofbeldinu. Þá beinir hann einnig orðum sínum til neytenda sem þurfi að vera betur á varðbergi gagnvart þeim vörum sem þeir kaupa. „Við eigum að spyrja spurninga um hvernig vörurnar sem við kaupum er framleiddar,“ segir hann.
„Pálmaolíugeirinn verður tvímælalaust að taka sig á og allir fjárfestar verða að afla sér upplýsinga til að tryggja að peningarnir þeirra verði ekki notaðir til að ræna landi, brjóta mannréttindi og að endingu í að drepa þá sem reyna að verjast.“