Svíar fá aðstoð frá NATÓ

Slökkviliðsmenn fylla á vatnstanka sem notaðir eru til þess að …
Slökkviliðsmenn fylla á vatnstanka sem notaðir eru til þess að úða á skógareldana. AFP

Sænska ríkisstjórnin hefur óskað eftir aðstoð frá Atlantshafsbandalaginu, NATÓ, vegna skógareldanna þar í landi. Greiðlega hefur gengið að skorða af eldana til þess að hindra útbreiðslu þeirra en enn er mikill viðbúnaður í slökkvistarfi. Sænska ríkisútvarpið greinir frá.  

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, sagði nýverið að ríkisstjórnin hefði ákveðið að heimila slökkviliði að óska eftir aðstoð á grundvelli friðarbandalagi NATÓ. Hann sagði einnig að nú sé tíminn til þess að sýna samstöðu og veita aukna aðstoð til þeirra sveitarfélaga sem hafa orðið hvað verst úti í skógareldunum. 

Tekist hefur að skorða eldana af og hindra útbreiðslu þeirra með hjálp slökkviliðsmanna á vegum Evrópusambandsins, en Evrópusambandið mun ekki geta sent frekari hjálp þar sem vöntun er á slökkviliðsmönnum í Grikklandi þar sem miklir skógareldar hafa kostað 74 manns lífið.

Tyrknesk slökkviliðsflugvél hefur verið boðin fram til aðstoðar í Svíþjóð, en Tyrkland er aðili að NATÓ samkomulaginu. 

Viðbragðsaðilar hafa gefið út að slökkvistarf gangi vel og slökkviliðsfólk hafi góða stjórn á stærri eldunum í mið Svíþjóð. Settar hafa verið upp eldvarnir með því að fjarlægja tré og brenna niður skógarspildur. Eins hafa verið byggðar upp vörður á svæðum þar sem nýir skógareldar kunna að kvikna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert